Erlent

Munu hefna fyrir þvinganir frá Bandaríkjunum

Samúel Karl Ólason skrifar
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands.
Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands. EPA/VALENTIN FLAURAUD

Yfirvöld Tyrklands segjast ætla að hefna sín ef Bandaríkjaþing ákveður að beita Tyrki viðskiptaþvingunum vegna kaupa þeirra á loftvarnarkerfi frá Rússlandi. Meðal annars komi til greina að íhuga að loka herstöðvum Bandaríkjanna í Tyrklandi. Bæði ríkin eru í Atlantshafsbandalaginu og þar með bandamenn.

Bandarískir þingmenn munu í dag kjósa um þvinganir gegn Tyrkjum og þykir líklegt að þær verði samþykktar.

Mikil spenna hefur verið á milli Bandaríkjanna og Tyrklands að undanförnu og að miklu leyti vegna kaupa Tyrkja á S-400 loftvarnarkerfinu frá Rússlandi. Tyrkir hafa prófað kerfið á orrustuþotum sem þeir keyptu frá Bandaríkjunum. Yfirvöld bandaríkjanna hafa meinað Tyrkjum að kaupa F-35 orrustuþotur.

Innrás Tyrkja inn í Sýrland, sem beinist gegn sýrlenskum Kúrdum, bandamönnum Bandaríkjanna gegn Íslamska ríkinu, hefur einnig komið verulega niður á sambandi ríkjanna.

Mevlut Cavusoglu, utanríkisráðherra Tyrklands, gaf í skyn í morgun að til greina kæmi að reka Bandaríkjamenn frá herstöðvunum í Incirlik og Kurecik, þar sem Bandaríkin hafa verið með viðveru um árabil. Allt kæmi til greina verði viðskiptaþvinganir samþykktar.

Herstöðin í Incirlik hefur verið aðal flugstöð Bandaríkjanna í miðausturlöndum á undanförnum árum og sérstaklega varðandi baráttuna gegn íslamska ríkinu í Sýrlandi og Írak. Kurecik er í austurhluta Tyrklands og þykir einstaklega mikilvæg fyrir NATO.



Cavusoglu sagði einnig í morgun að Tyrkir hefðu keypt S-400 kerfið vegna þess að besta tilboðið hefði komið frá Rússlandi. Hann sagði að í stað F-35 gætu Tyrkir þar að auki keypt orrustuþotur frá Rússlandi. Í það minnsta þar til Tyrkir hefja framleiðslu á eigin orrustuþotum.

Samkvæmt Reuters gerður Tyrkir samkomulag við Breta árið 2017 sem felur í sér þróun orrustuþota fyrir Tyrklands. Fyrirtækin Kale Group og Rolls-Royce hafa unnið að þeirri þróun. Fyrr á árinu tilkynntu forsvarsmenn Rolls-Royce þó að þeir hefðu dregið úr aðkomu fyrirtækisins að verkefninu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×