Erlent

Skotárás í kirkju í Bandaríkjunum

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Öryggisvörður í kirkjunni er sagður vera meðal þeirra sem urðu fyrir skoti.
Öryggisvörður í kirkjunni er sagður vera meðal þeirra sem urðu fyrir skoti. Vísir/AP

Tvö létust og einn særðist lífshættulega í skotárás í kirkju í Fort Worth í Texas-ríki í Bandaríkjunum í dag.

Í frétt Guardian um málið segir að þrír einstaklingar, allt karlmenn, hafi orðið fyrir skotum, og tveir þeirra hafi látist. Sá þriðji var færður á sjúkrahús með lífshættulega áverka.

Ástæður að baki skotárásinni liggja ekki fyrir, samkvæmt yfirvöldum í Fort Worth.

Þá hefur New York Times eftir eldri hjónum sem urðu vitni að árásinni að einn hinna látnu sé öryggisvörður sem reyndi að bregðast við árásinni.

„Hann reyndi að gera það sem þurfti til þess að vernda okkur hin,“ hefur NYT eftir Mike Tinius, sem segir öryggisvörðinn hafa verið góðan vin sinn.

„Það er algerlega hræðilegt að sjá einhvern fremja ofbeldisverk,“ bætti hann við og sagðist ekki hafa þekkt til árásarmannsins né þekkja ástæðurnar að baki árásinni.

Þá telja viðbragðsaðilar í Fort Worth að einn þeirra þriggja sem voru skotnir hafi verið árásarmaðurinn sjálfur.

Greg Abbott, ríkisstjóri Texas, bað íbúa ríkisins að biðja fyrir fórnarlömbunum og aðstandendum þeirra, í tísti sem hann gaf út í kjölfar árásanna.

„Tilbeiðslustaðir eiga að vera heilagir, og ég er þakklátur þeim safnaðarmeðlimum sem brugðust skjótt við og tóku árásarmanninn niður og forðuðu þannig frekara mannfalli.“



Rúmlega tvö ár eru síðan önnur skotárás átti sér stað í kirkju í Texas, en í nóvember 2017 skaut Devin Patrick Kelley á þriðja tug kirkjugesta til bana í Sutherland Springs áður en hann framdi sjálfsvíg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×