Erlent

Mikki, Mína og Andrés áreitt í Disney-garðinum

Kjartan Kjartansson skrifar
Skilti sem vísar veginn að Disney World-skemmtigarðinum við Buena Vista-vatn í Flórída.
Skilti sem vísar veginn að Disney World-skemmtigarðinum við Buena Vista-vatn í Flórída. AP/John Raoux

Starfsmenn Disney World-skemmtigarðsins í Flórída í Bandaríkjunum sem bregða sér í gervi Mikka og Mínu músar og Andrésar andar lögðu fram kæru til lögreglu vegna þess að ferðamenn snertu þá á óviðeigandi hátt fyrr í þessum mánuði. Fólkið hefur verið áreitt kynferðislega og hlotið áverka eftir gesti.

Rúmlega fimmtugur karlmaður var handtekinn í síðasta mánuði eftir að kona í gervi Disney-prinsessu sakaði hann um að hafa þuklað á brjóstum hennar þegar hún sat fyrir á mynd með honum. Önnur kona sem leikur Mínu mús segir að maður hafi gripið um brjóstin á hennar í þrígang þegar hún faðmaði hann fyrir myndatöku, að sögn AP-fréttastofunnar. Maðurinn var settur í bann frá Disney-görðunum í kjölfarið þar sem hann hafði áður áreitt starfsmenn.

Þá hlaut kona í Mikka músarbúningi áverka á hálsi þegar eldri kona klappaði henni ítrekað á höfuðið þannig að höfuð búningsins rann niður og hún tognaði á hálsi. Konan taldi þó ekki að gesturinn hefði slasað hana viljandi og var opinber rannsókn á atvikinu felld niður.

Átján ára gamall starfsmaður í Andrésar andarbúningi greindi frá því að kona hafi gerst ágeng, snert hann og gripið í hendurnar, brjóstkassann, magann og andlitið. Þegar starfsmaðurinn reyndi að leita til samstarfsmanns eftir aðstoð elti konan, hélt í hann og reyndi ákaflega að komast inn á búninginn. Atvikið var ekki kært en starfsmaðurinn taldi að konan gæti hafa þjáðst af vitglöpum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×