Innlent

Karlmaður handtekinn á vettvangi brunans

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Brunavarnir Árnessýslu að störfum á vettvangi í gærkvöldi.
Brunavarnir Árnessýslu að störfum á vettvangi í gærkvöldi. Aðsend

Karlmaður var handtekinn á vettvangi brunans í Grímsnesi í gærkvöldi. Sumarhús brann þar til kaldra kola. Maðurinn, sem ekki var viðræðuhæfur sökum ástands í gær, var yfirheyrður í morgun, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu á Suðurlandi. RÚV greindi fyrst frá.

Sumarhúsið var alelda þegar slökkvilið bar að garði í gærkvöldi. Reynt var að koma í veg fyrir að eldurinn bærist í önnur hús og að endingu náðist að bjarga skúrum á lóðinni.

Elís Kjartansson rannsóknarlögreglumaður hjá lögreglunni á Suðurlandi segir í samtali við Vísi að maðurinn hafi verið staddur á vettvangi en hann hafi verið í annarlegu ástandi svo ekki hafi verið unnt að yfir heyra hann. Maðurinn var því handtekinn og færður í fangageymslu á Selfossi.

Hann var yfirheyrður í morgun og sleppt að skýrslutöku lokinni. Á vef lögreglunnar segir maðurinn hafi verið umsjónarmaður bústaðarins og sjálfur tilkynnt um eldinn.

Húsið gjöreyðilagðist eins og sjá má.Aðsend

Þá stendur enn yfir rannsókn á vettvangi brunans. Eldsupptök eru enn ókunn en vonast er til að málið taki að skýrast þegar yfirheyrslur yfir manninum hefjast.

Slökkvistarfi lauk um miðnætti í gær. Pétur Pétursson slökkviliðsstjóri Brunavarna Árnessýslu, sagði í samtali við Vísi um ellefuleytið í gærkvöldi að verið væri að slökkva í glæðum. Þá hafði tekist að koma í veg fyrir að eldur kviknaði í gróðri í kringum húsið. Þá var einnig talið í fyrstu að húsið hefði verið mannlaust er eldurinn kviknaði.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×