Lífið

Gri­mes „út­skýrir“ nafn barnsins

Atli Ísleifsson skrifar
Hin 32 ára Grimes og hinn 48 ára Elon Musk.
Hin 32 ára Grimes og hinn 48 ára Elon Musk. Getty

Elon Musk, eigandi Tesla, tísti fyrr í vikunni þar sem hann greindi frá nafninu á nýfæddu barni hans og kanadísku söngkonunnar Grimes. Nafnið þykir einstakt í meira lagi, og hefur söngkonan nú skýrt frá því hvað það táknar.

Musk sagði nafn drengsins vera „X Æ A-12“, en enn á eftir að koma í ljós hvort að það rati alla leið í opinber gögn.

Skiljanlega fóru miklar umræður af stað hvort að A-12 kunni að vera vísun í Lockheed-þotuna A-12 og sömuleiðis af hverju norræni stafurinn „Æ“ hafi ratað í nafnið.

Grimes, sem heitir Claire Elise Boucher réttu nafni, kom hins vegar með „útskýringu“ á þessu öllu saman í tísti fyrr í dag.

„X, hin óþekkta breyta,

Æ, álfastafsetning á Ai (ást og/eða gervigreind)

A-12 = forveri SR-17 (uppáhaldsflugvél okkar. Engin vopn, engar varnir, bara hraði. Frábær í orrustum, en ekki ofbeldisfull).

+

(A= „Archangel“, uppáhaldslagið mitt)

(Málmrotta)“

People segir 12 vísa í rottu, kínverska stjörnumerkið, en 2020 er ár málmrottunnar í kínverskri stjörnuspeki. Enn á eftir að koma almennilega fram hvernig bera skuli fram nafn drengsins.

Elon Musk eignaðist sex börn með fyrrverandi eiginkonu sinni, Justine Musk, en þau voru gift frá árinu 2000 til 2008. Fyrsti sonur hans, Nevada, lést úr krabbameini árið 2002.

Musk og Grimes byrjuðu saman árið 2018 og greindu fyrst frá því að þau ættu von á barni í janúar.

Hér að neðan má heyra lagið Archangel með Burial, en netverjar eru margir nokkuð vissir í sinni sök að það sé lagið sem Grimes á við sem uppáhaldslagið sitt. Það má í það minnsta finna á þessum lista af uppáhaldslögum hennar frá 2013.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×