Innlent

Eyjamenn aldrei verið jafnspenntir og boða fótboltamótin samkvæmt áætlun

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Margir eiga góðar minningar frá heimsókn sinni á Heimaey í júní til keppni á fótboltamóti.
Margir eiga góðar minningar frá heimsókn sinni á Heimaey í júní til keppni á fótboltamóti. Vísir/Vilhelm

Árleg fótboltamót fara fram í Vestmannaeyjum á tilsettum tíma. Þetta tilkynntu Eyjamenn í dag. TM-mótið verður haldið 10.-13. júní og Orkumótið 24.-27. júní. Munu mótin verða með sama sniði og undanfarin ár. Von er á um þúsund iðkendum á TM-mótið sem er fyrir tólf ára stelpur og ellefu hundrað iðkendum á Orkumótið en mótið er fyrir tíu ára drengi.

Töluverð óvissa hefur verið um mótin undanfarnar vikur vegna kórónuveirufaraldursins. Aðgerðaráætlanir hafa verið unnar með aðgerðarstjórn almannavarna út frá þeim upplýsingum sem liggja fyrir í dag.

Í tilkynningu frá Íþróttabandalagi Vestmannaeyja er minnt á að fjöldatakmarkanir, sem nú miðast við fimmtíu manns í rými og munu að óbreyttu miða við meiri fjölda með tímanum, gilda ekki um börn, aðeins fullorðna. Því ætla Eyjamenn að takmarka aðgengi foreldra í gistingu, mat og jafnvel á þá viðburði sem fara fram inni í íþróttahúsi.

Foreldrum er velkomið að koma og fylgjast með leikjum en þó með því skilyrði að þeir haldi sig inn á afmörkuðum svæðum og haldi tveggja metra reglunni.

„Við gerum okkur grein fyrir því að ekki hafa allir þeir sem ætluðu sér að koma tækifæri til þess vegna t.d. undirliggjandi sjúkdóma og því óskum við eftir því að þið farið að vinna að því að fá lokatölur á þátttakendum ykkar félags og senda okkur fyrir 18. maí. Við höfum seinkað eindaga þátttökugjalda fyrir einstaklinga til 25. maí (hafi fjöldatölum verið skilað eigi síðar en 18. maí). Í ljósi aðstæðna þá getum við ekki tekið á móti fleiri en tveimur fullorðnum í gistingu eða mat á okkar vegum á hvert lið.“

Segjast Eyjamenn aldrei hafa hlakkað jafn mikið til að sjá þátttakendur og þeirra fólk.

Aðgerðaráætlunina fyrir Orkumótið má lesa hér.

Aðgerðaráætlunina fyrir TM-mótið má lesa hér.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×