Viðskipti innlent

„Algjörlega óþolandi“ að sjá fyrirtæki misnota aðstoð stjórnvalda

Berghildur Erla Bernharðsdóttir og Kolbeinn Tumi Daðason skrifa
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í viðtali vegna málsins í dag.
Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra í viðtali vegna málsins í dag. Vísir

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra er verulega ósáttur yfir þeim tíðindum að stöndug fyrirtæki í landinu noti hlutabótaleið stjórnvalda. Skilyrði verði sett á leiðina til að koma í veg fyrir svona misnotkun.

„Það var lögð rík áhersla á það að koma til móts við fyrirtæki sem eru í vanda í tengslum við Covid og ég held að það sé almennur samfélagslegur vilji til þess. Þess vegna er algjörlega óþolandi að sjá fyrirtæki sem eru að ganga á þennan vilja almennings mjög freklega eins og við erum að sjá í fréttum sem hafa verið að berast undanfarna daga,“ segir Ásmundur Einar.

Greint hefur verið frá því að fyrirtækin Össur, Hagar og Skeljungur hafi öll nýtt sér hlutabótaleið stjórnvalda á meðan þau greiddu eigendum sínum út arð eða keyptu eigin bréf.

ASÍ sendi frá sér harðorða yfirlýsingu í gær eftir að tíðindi bárust af arðgreiðslu til handa eigendum Össurar á sama tíma og 165 starfsmenn fyrirtækisins eru á hlutabótaleiðinni. Sagði í ályktun miðstjórnar ASÍ að þetta væri „ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt.“

Ráðherra segir að þótt hlutabótaleiðin hafi verið nokkuð opin í upphafi þá hafi alltaf legið fyrir að leiðin yrði ekki án skilyrða.

„Við ákváðum að hafa þetta opið í upphafi vegna þess að þetta væri tímabundið ástand og við vildum verja ráðningarsamband fólksins. En að í framhaldinu yrði lögð rík áhersla á að það yrðu sett stífari skilyrði á þessa misnotkun eða siðferðilegu nálgun sem ég kann vægast sagt ekki vel að meta,“ segir Ásmundur Einar.

„Við viljum ekki að farið sé svona með almannafé,“ segir Ásmundur Einar.

Hann á von á að vinnu við framhald hlutabótaleiðarinnar og frumvarp um stuðning við fyrirtæki sem standa í uppsögnum ljúki í næstu viku.

Viðtalið við Ásmund Einar má sjá í heild hér að neðan. 


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×