Viðskipti innlent

Skeljungur býður starfs­mönnum fullt starf á ný og endur­greiðir Vinnu­mála­stofnun

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs.
Árni Pétur Jónsson, forstjóri Skeljungs.

Skeljungur hefur ákveðið að bjóða öllum starfsmönnum sínum  100% vinnu á ný og endurgreiða Vinnumálastofnun. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Greint var frá því í gær að starfshlutfall um helmings starfsmanna Skeljungs hefði verið lækkað og þeir settir á svokallaða hlutabótaleið stjórnvalda. Stjórnendum félagsins reiknaðist til í samtali við Stundina að hlutabótagreiðslur til starfsmanna í apríl hafi numið um 6 til 7 millljónum króna. Skeljungur greiddi hluthöfum sínum 600 milljóna króna arð í aprílbyrjun og keyptu eigin bréf fyrir 186 milljónir síðar í sama mánuði.

Í tilkynningu Skeljungs, sem Árni Pétur Jónsson, forstjóri fyrirtækisins, sendi fjölmiðlum á sjötta tímanum í dag, er vísað í umrædda fjölmiðlaumfjöllun. Að athuguðu máli telji Skeljungur að ekki hafi verið rétt að nýta hlutabótaúrræðið.

„Skeljungur mun því bjóða starfsmönnum sínum 100% vinnu frá og með 1. maí og endurgreiða Vinnumálastofnun allan þann kostnað sem til féll vegna starfsmanna Skeljungs í aprílmánuði. Allir starfsmenn Skeljungs hafa nú verið færðir í 100% vinnuhlutfall og munu því ekki sækja frekari bætur til Vinnumálastofnunar.“

Fyrirtækin Össur og Hagar hafa einnig nýtt sér hlutabótaleiðina á sama tíma og þau greiddu eigendum sínum út arð eða keyptu eigin bréf. Mjög hefur borið á gagnrýni á þessa stefnu. 

ASÍ sendi til að mynda frá sér harðorða yfirlýsingu í gær eftir að tíðindi bárust af arðgreiðslu til handa eigendum Össurar. Sagði í ályktuninni að þetta væri „ósiðlegt og ætti með réttu að vera ólöglegt.“

Ásmundur Einar Daðason félagsmálaráðherra kvaðst jafnframt í dag verulega ósáttur yfir þeim tíðindum að stöndug fyrirtæki í landinu noti hlutabótaleiðina. Skilyrði verði sett á leiðina til að koma í veg fyrir slíka misnotkun.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×