Helena Rut Örvarsdóttir og Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskonur í handbolta, eru gengnar í raðir Stjörnunnar. Þær skrifuðu báðar undir tveggja ára samning við félagið.
Helena og Eva Björk hafa leikið erlendis undanfarin ár. Síðast lék Helena með SønderjyskE í Danmörku á meðan Eva Björk spilaði með Skuru í Svíþjóð.
Helena er uppalin hjá Stjörnunni og varð bikarmeistari með liðinu 2016 og 2017 og deildarmeistari 2017.
Eva Björk kemur úr Gróttu þar sem hún varð tvisvar sinnum Íslandsmeistari (2015 og 2016), einu sinni bikarmeistari (2015) og einu sinni deildarmeistari (2015).
Stjarnan endaði í 3. sæti Olís-deildar kvenna á síðasta tímabili. Eftir það lét Sebastian Alexandersson af störfum sem þjálfari liðsins og við tók Rakel Dögg Bragadóttir.
Stjarnan komnar/farnar
Komnar:
- Helena Rut Örvarsdóttir frá SønderjyskE (Danmörku)
- Eva Björk Davíðsdóttir frá Skuru (Svíþjóð)
- Katla María Magnúsdóttir frá Selfossi
- Heiðrún Dís Magnúsdóttir frá Fram
- Anna Karen Hansdóttir frá Horsens (Danmörku)
- Liisa Bergdís Arnarsdóttir frá Kongsvinger (Noregi)
Farnar:
- Ólöf Ásta Arnþórsdóttir til HK
- Þórey Anna Ásgeirsdóttir til Vals