Fótbolti

Van Gaal sakar Ajax um eiginhagsmunasemi

Sindri Sverrisson skrifar
Louis van Gaal er óhræddur við að segja sína skoðun.
Louis van Gaal er óhræddur við að segja sína skoðun. VÍSIR/GETTY

Louis van Gaal, sem varð Evrópumeistari og þrefaldur Hollandsmeistari sem knattspyrnustjóri Ajax, segir félagið aðeins vera að hugsa um eigin hagsmuni með því að vilja ljúka keppnistímabilinu vegna kórónuveirufaraldursins.

Ajax hefur kallað eftir því að tímabilið verði flautað af og að miðað verði við stöðuna sem var í hollensku úrvalsdeildinni þegar hlé var gert vegna faraldursins. Ajax var þá í efsta sæti eftir 25 leiki en hafði tapað tveimur af síðustu þremur leikjum sínum, og var aðeins fyrir ofan AZ Alkmaar vegna betri markatölu. Van Gaal vill hins vegar að núverandi tímabil verði klárað, hvenær sem það verði hægt.

„Þegar að sú niðurstaða kemur að kórónuveiran hafi verið sigruð, þá verður fyrst að klára núverandi keppnistímabil. Íþróttir eru til þess gerðar að sigurvegarinn vinni úti á velli. Það er ekki þannig að mótinu sé slitið eftir 25 leiki og Ajax krýnt meistari,“ sagði Van Gaal við Algemeen Dagblad.

„En á meðan að ríkisstjórnin hefur verið að fylgja ráðum sérfræðinga í fleiri vikur þá segja sum knattspyrnufélög að það sé ekki hægt. Ajax var fyrst til þess. Ég get ekki sætt mig við félög sem nota kórónuveiruna til að hagnast sjálf, og láta svo eins og að þau séu að hugsa um heilsu fólks,“ sagði Van Gaal og minnti á að UEFA hefði skapað mikið rými í sumar til að hægt sé að spila í deildum verði þess nokkur kostur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×