Enski boltinn

Óttast að Sadio Mane geri sömu mistök og Coutinho

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sadio Mane hefur staðið sig frábærlega með liði Liverpool á síðustu árum.
Sadio Mane hefur staðið sig frábærlega með liði Liverpool á síðustu árum. Getty/Marc Atkins

Sadio Mane er kominn í hóp bestu knattspyrnumanna heims eftir frábæra frammistöðu sína með Liverpool. Það þýðir líka mikinn áhuga frá risunum í suðri.

Liverpool maðurinn Sadio Mane er stanslaust orðaður við Real Madrid og nú síðast var skrifað um mögulegt 150 milljón punda tilboðs spænska félagsins.

Fyrrum leikmaður Liverpool telur að Sadio Mane myndi gera mistök ef hann færi frá Liverpool á þessum tímapunkti.

John Aldridge fór á kostum í mestaraliði Liverpool tímabilið 1987-88 og hefur verið áberandi í kringum félagið síðustu ár. Aldridge skoraði 26 deildarmörk fyrir Liverpool 1987-88 og 21 deildarmark tímabilið á eftir.

Aldridge segir að Liverpool sé með betra lið en bæði Barcelona og Real Madrid og óttast það að Sadio Mane væri að gera sömu mistök og Coutinho, ef hann yfirgefur Anfield í sumar.

Philippe Coutinho var síðasta stórstjarnan sem Liverpool seldi en áður hafði Liverpool einnig selt Luis Suarez til Barcelona. Suarez festi sig í sessi hjá Barcelona en lítið hefur gengið hjá Philippe Coutinho.

„Það hafa ekki allir lent í vandræðum eftir að þeir yfirgáfu Liverpool. Sjáum bara Raheem Sterling hjá Manchester City,“ sagði John Aldridge við Liverpool Echo.

„Philippe Coutinho er samt gott dæmi á síðustu árum um hvernig hlutirnir geta farið illa. Hann var á toppi ferils síns þegar hann fór fram á Liverpool til Barcelona en síðan hefur orðið lítið úr honum,“ sagði John Aldridge

„Það sem skiptir kannski meira máli er að í dag er Liverpool með betra lið en Real Madrid og Barcelona,“ sagði Aldridge sem þekkir vel til á Spáni þar sem hann spilaði með Real Sociedad eftir tíma sinn hjá Liverpool.

„Ég ber mikla virðingu fyrir Barcelona. Þegar ég spilaði á Spáni þá elskaði ég að fara þangað og hlutirnir gengu vel hjá mér þar. Enska úrvalsdeildin en hins vegar besta deildin í heimi í dag,“ sagði John Aldridge.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×