Skósafnarinn Jordy Geller hafði rétt fyrir sér þegar hann taldi að nú gæti verið rétti tíminn til að selja par af Nike-skóm sem Michael Jordan notaði á fyrsta tímabili sínu í NBA-deildinni í körfubolta.
Um er að ræða Air Jordan 1 körfuboltaskó, fyrstu tegundina sem að Nike framleiddi sérstaklega í samstarfi við Jordan. Í kjölfarið á gríðarlegum vinsældum The Last Dance þáttanna, sem fjalla um Jordan og Chicago Bulls-liðið á gullaldarárum þess undir lok síðustu aldar, ákvað Geller að setja skóna á uppboð. Skórnir eru áritaðir af Jordan og í nýju Jordan-æði sem nú virðist vera í gangi var því ljóst að hægt yrði að fá hátt verð fyrir parið.
Nú eru skórnir seldir á heil 560 þúsund Bandaríkjadala, eða jafnvirði um 82 milljóna króna. Ekki fylgir sögunni hvað Geller greiddi fyrir skóna þegar hann keypti þá árið 2012, en samkvæmt Action Network er um að ræða hæsta verð sem greitt hefur verið á uppboði fyrir strigaskó. Ekki liggur ljóst fyrir hver kaupandinn er.