Erlent

Fyrsta dauðsfallið á Norðurlöndum

Samúel Karl Ólason skrifar
Viðkomandi aðili var á gjörgæslu Karolinska.
Viðkomandi aðili var á gjörgæslu Karolinska. EPA/ANDERS WIKLUND

Fyrsta dauðsfallið í Svíþjóð vegna nýju kórónuveirunnar hefur átt sér stað. Um er að ræða eldri manneskju sem dó á gjörgæslu á Karolinska sjúkrahúsinu í Stokkhólmi en viðkomandi glímdi áður við undirliggjandi veikindi.

Í tilkynningu segir að annar sjúklingur með Covid-19, sjúkdóminn sem nýja kórónuveiran veldur, sé á gjörgæslu í Stokkhólmi.

Heilt yfir hafa 486 smitast af veirunni í Svíþjóð og nú hefur einn látið lífið, samkvæmt Aftonbladet.

Þetta er fyrsta dauðsfallið á Norðurlöndum sem rekja má til veirunnar. Eldra fólk og fólk með undirliggjandi veikindi er sérstaklega viðkvæmt gagnvart henni.

Yfirvöld í Svíþjóð munu leggja til í dag að fjöldasamkomur 500 eða fleiri fari ekki fram. Mun það hafa mikil áhrif á menningarlíf landsins, samkvæmt frétt SVT.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×