Innlent

Lilja og Guðni af­boða sig á Ís­lensku tón­listar­verð­launin vegna veirunnar

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands.
Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðni Th. Jóhannesson, forseti Íslands. Vísir/vilhelm

Hvorki forseti Íslands né menntamálaráðherra munu mæta á Íslensku tónlistarverðlaunin sem veitt verða við hátíðlega athöfn í kvöld. Til stóð að þau yrðu bæði viðstödd verðlaunaafhendinguna en þau hafa afþakkað boðið vegna kórónuveirunnar, að því er fram kemur í svörum þeirra við fyrirspurnum fréttastofu.

Íslensku tónlistarverðlaunin verða veitt í Hörpu í kvöld og hefst athöfnin klukkan 18:30. Verðlaunahátíðin hefur ekki verið blásin af vegna veirunnar líkt og fjölmargar fjöldasamkomur undanfarna daga en skipuleggjendur biðja viðstadda um að sýna ítrustu varkárni og fylgja tilmælum sóttvarnalæknis um snertingu og handþvott.

Gert var ráð fyrir að bæði Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra og Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands myndu mæta á tónlistarverðlaunin í kvöld. Fréttastofa sendi ráðuneytinu og forsetaritara fyrirspurn um hvort enn stæði til að Lilja og Guðni yrðu viðstödd í ljósi faraldurs kórónuveirunnar sem hér geisar.

Í svari mennta- og menningarmálaráðuneytisins segir að Lilja muni ekki taka þátt í hátíðinni í ár vegna „þeirrar óvissu sem uppi er í tengslum við COVID-19“. Þá hafi skipuleggjendur verið upplýstir um þá ákvörðun fyrir hádegi í dag.

Í svari forseta segir að síðustu daga hafi fjölmörgum viðburðum, sem honum hafi verið boðið á og ætlað að sækja, verið frestað eða aflýst. Skipuleggjendur þessara viðburða hafi þannig sýnt í verki samfélagslega ábyrgð.

„Af virðingu við þá erfiðu en lofsverðu afstöðu ákvað ég að þiggja ekki boð um að vera við afhendingu Íslensku tónlistarverðlaunanna í kvöld. Þeir, sem að þeim standa, vita að sú ákvörðun hefur engin áhrif á viðburðinn sjálfan og óska ég þeim, gestum og verðlaunahöfum alls velfarnaðar.“

Líkt og áður segir hefur fjölmörgum viðburðum verið frestað eða aflýst síðustu daga vegna kórónuveirunnar. Yfirvöld hafa ekki komið á samkomubanni hér á landi en í tilkynningu frá almannavörnum í dag kom þó fram að ekki sé útilokað að gripið verði til slíkra aðgerða til að stemma stigu við útbreiðslu veirunnar.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×