Erlent

Hörð viðbrögð við ræðu Johnson: „Það er verið að hafa okkur að fíflum“

Sylvía Hall skrifar
Bretar eru verulega ósáttir við forsætisráðherrann og ráðgjafa hans.
Bretar eru verulega ósáttir við forsætisráðherrann og ráðgjafa hans. Vísir/Getty

Boris Johnson, forsætisráðherra Bretlands, kom ráðgjafa sínum Dominic Cummings til varnar á daglegum upplýsingafundi ríkisstjórnarinnar vegna faraldurs kórónuveirunnar. Cummings hefur verið harðlega gagnrýndur fyrir að virða ferðabann stjórnvalda að vettugi til þess að koma börnum sínum í pössun.

Fjölmargir hafa farið fram á að Cummings segi af sér sem ráðgjafi forsætisráðherra vegna málsins. Meðal þeirra sem tjáðu sig um málið var fjölmiðlamaðurinn Piers Morgan sem sagði ólíðandi að yfirvöld settu reglur sem þau færu ekki eftir sjálf.

Á upplýsingafundinum í dag sagði Johnson Cummings hafa hagað sér á ábyrgan hátt og gert það sem allir foreldrar hefðu gert í sömu stöðu. Það væri ekkert út á hann að setja, hann hefði þurft að koma börnum sínum í pössun þar sem hann og kona hans töldu sig vera með kórónuveiruna.

„Ef við lítum á þann alvarlega vanda sem er vegna skorts á dagvistunarúrræðum fyrir börn, sem blasti við Dominic Cummings og fjölskyldu hans, þá held ég að það sem þau gerðu hafi verið fullkomlega skiljanlegt,“ sagði Johnson og bætti við að Cummings hafi valið það úrræði að leita til foreldra sinna í 400 kílómetra fjarlægð.

„Hann fann stað þar sem þörfum barna hans gat best verið sinnt og það fól í sér ferðalög.“

„Skammarlegt, hættulegt og niðurdrepandi“

Ræða Johnson vakti vægast sagt hörð viðbrögð. Á samfélagsmiðlum hafa margir lýst yfir vonbrigðum og reiði vegna hennar og eru hneykslaðir á forsætisráðherranum að verja slíka hegðun þegar almenningur í landinu reyndi eftir bestu getu að fylgja fyrirmælum og hlíta útgöngu- og ferðabanni yfirvalda.

Rithöfundurinn J.K. Rowling sagði ræðu Johnson vera fyrirlitlega. Fjölskyldur um allt land hefðu fylgt tilmælum yfirvalda, jafnvel þó það væri erfitt og sumir á meðan þeir voru veikir. Hundruð þúsunda höfðu haldið sig heima með fjölskyldur og börn til þess að hjálpa samfélaginu í heild sinni.

Fjölmiðlamaðurinn Richard Osman var einnig verulega ósáttur við ræðuna. Hann sagði Johnson einfaldlega vera að hafa fólk að fíflum.

Blaðamaðurinn Philip Collins sagðist vera að upplifa það í fyrsta sinn að bera enga virðingu fyrir forsætisráðherra landsins. Það hefðu verið forsætisráðherrar sem honum mislíkaði, en aldrei fyrr hefði hann upplifað það að virðingin væri engin.

Þá gaf fólk lítið fyrir þá afsökun að Cummings hefði þurft pössun fyrir börn sín. Viðbrögð netverja voru flest á þann veg að það hafi komið á óvart að sjá Johnson verja ráðgjafa sinn með þessum hætti, enda hefur Bretland farið einna verst landa út úr kórónuveirufaraldrinum í Evrópu.


Tengdar fréttir

Segja Cummings hafa farið oftar frá Lundúnum

Breski stjórnmálaráðgjafinn Dominic Cummings, sem gegnt hefur stöðu ráðgjafa Boris Johnson forsætisráðherra Bretlands í tæplega eitt ár, stendur nú frammi fyrir nýjum ásökunum um að hafa virt ferðabann stjórnvalda vegna faraldursins að vettugi.

Kalla eftir afsögn ráðgjafa Johnson eftir brot á sóttvarnareglum

Kallað hefur verið eftir afsögn Dominic Cummings, helsta ráðgjafa forsætisráðherra Bretlands, eftir að Cummings ferðaðist frá Lundúnum til Durham eftir að hafa verið gert að einangra sjálfan sig eftir að hafa fundið fyrir einkennum kórónuveirusmits.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×