Erlent

Danir loka landinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur.
Mette Frederiksen, forsætisráðherra Danmerkur. Vísir/Getty

Dönskum landamærum verður lokað á hádegi á morgun til að stemma stigu við útbreiðslu kórónuveirunnar. Þá verða samgöngur á láði og legi lagðar niður, ýmist alfarið eða að hluta. Lokunin gildir til og með 13. apríl næstkomandi. Þetta var tilkynnt á blaðamannafundi Mette Frederiksen forsætisráðherra Danmerkur og annarra ráðamanna nú rétt í þessu. 

Áfram verða flutt inn matvæli, lyf og aðrar nauðsynjavörur á meðan lokuninni stendur. Þá verður öllum sem ekki hafa „lögmæta ástæðu“ til að ferðast til Danmerkur meinaður aðgangur að landinu. 

Þeim sem búa eða starfa í Danmörku, eiga í mikilvægum viðskiptum eða þurfa að heimsækja alvarlega veik skyldmenni verður þannig hleypt inn í landið. Allir danskir ríkisborgarar munu jafnframt eiga þess kost að snúa heim. 

Almennar heimsóknir til Danmerkur, jafnvel til fjölskyldu sem þar kynni að vera búsett, teljast hins vegar ekki lögmætar ástæður, að sögn Nick Hækkerup, dómsmálaráðherra.

Búast má við að hermenn gæti landamæranna næstu vikur. Þá sagði Frederiksen Dani nú standa frammi fyrir nýrri áskorun en hún væri viss um að þjóðin kæmist saman í gegnum hina erfiðu tíma.

Yfirvöld réðu Dönum í dag frá öllum ónauðsynlegum ferðalögum til útlanda til og með 13. apríl. Þá eru allir Danir sem staddir eru erlendis hvattir til að snúa heim til Danmerkur eins fljótt og kostur er.

Fyrsta til­felli kór­ónu­veirunn­ar greind­ist í Dan­mörku 27. fe­brú­ar. Nú hafa 788 til­felli kór­ónu­veirunn­ar verið staðfest þar í landi en enginn hefur látist úr veirunni.

Fréttin hefur verið uppfærð.


Tengdar fréttir

Furða sig á að Turninn hafi verið valinn fyrir skimunarmiðstöð

Leigutakar í Turninum í Kópavogi voru órólegir þegar þeir fengu að vita með skömmum fyrirvara að Íslensk erfðagreining ætlaði að skima fyrir COVID-19 í byggingunni í dag. Eigandi Turnsins segist hafa verið í sambandi við sóttvarnalækni um að færa skimunina annað.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×