Lögreglan á Suðurnesjum telur sig hafa haft uppi á eldri manninum sem mun hafa afhent unglingspilti hlaupbangsa sem innihéldu kannabisefni og morfín. Tvær unglingsstúlkur voru fluttar meðvitundarlausar á sjúkrahús á föstudagskvöld eftir að hafa innbyrt bangsana.
Ólafur Helgi Kjartansson, lögreglustjórinn á Suðurnesjum, staðfestir í samtali við Vísi að lögreglan telji sig hafa fundið manninn en fyrst var greint frá á mbl.
Ólafur segist að öðru leyti ekki geta sagt meira um málið, til að mynda á hvaða aldri maðurinn er eða hvort hann sé í haldi lögreglu. Segir Ólafur að lögregla hafi vonandi frekari upplýsingar á morgun.
Lögreglan á Suðurnesjum greindi frá málinu í færslu á Facebook-síðu sinni í gær. Þar sagði að rannsókn lögreglu hefði leitt í ljós að stúlkurnar voru á sama stað fyrr um kvöldið og var þeim boðið að fá sér hlaup.
„Ómeðvitaðar hvað væri í hlaupinu þá fengu þær sér og enduðu þær báðar á sjúkrahúsi. Málin bárust til okkar og rannsókn leiddi í ljós að stúlkurnar höfðu fengið þetta hjá ungum aðila sem hafði sjálfur keypt þetta af sér eldri manni,“ sagði í færslu lögreglu í gær sem sjá má hér fyrir neðan.