Innlent

Frumvarp um ríkisstuðning á uppsagnafresti samþykkt

Andri Eysteinsson og Sylvía Hall skrifa
Frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt með 48 atkvæðum.
Frumvarp ríkisstjórnarinnar var samþykkt með 48 atkvæðum. Vísir/Vilhelm

Frumvarp ríkisstjórnarinnar um ríkisstuðning á uppsagnarfresti var samþykkt á Alþingi nú skömmu fyrir klukkan ellefu í kvöld.

Frumvarpið felur í sér að ríkissjóður greiði hluta launakostnaðar atvinnurekenda á uppsagnarfresti til að draga úr líkum á gjaldþroti. Fjörugar umræður sköpuðust á þinginu í kvöld og gagnrýndu meðlimir stjórnarandstöðunnar að frumvarpið gæti skapað hvata fyrir fyrirtæki að segja fólki upp.

Sama var uppi á teningunum í umræðum um málið í dag en þingmenn stjórnarandstöðunnar sögðust óttast að frumvarpið óbreytt myndi hvetja fyrirtæki til uppsagna.

Stjórnarliðar fullyrtu þó að fyrirtæki þyrftu að uppfylla ströng skilyrði til þess að geta nýtt úrræðið.  Búist er við að aðgerðin kosti ríkissjóð allt að 27 milljarða króna. Tekjur þeirra fyrirtækja sem nýta úrræðið þurfa að hafa dregist saman um 75% á þriggja mánaða tímabili. Þá eru settar margvíslegar skorður í frumvarpinu við úthlutun arðgreiðslna hjá fyrirtækjum sem njóta úrræðisins.

Eftir þónokkrar umræður og atkvæðagreiðslur um hinar ýmsu breytingartillögur voru greidd atkvæði um frumvarpið í heild sinni og fór svo að frumvarpið var samþykkt með 48 samhljóða atkvæðum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×