Fótbolti

Fólk í Vanúatú og Úsbekistan í íslenskum landsliðsfatnaði

Sindri Sverrisson skrifar
Íslensku landsliðin eru hætt að klæðast Errea-fötum og færa sig nú yfir í Puma.
Íslensku landsliðin eru hætt að klæðast Errea-fötum og færa sig nú yfir í Puma. vísir/getty

Það hefur verið nóg að gera á búningalager Knattspyrnusambands Íslands síðustu daga þar sem rýmt hefur verið til fyrir nýjum búningum og öðrum klæðnaði frá Puma, fyrir landsliðsfólkið.

Samstarfi KSÍ við Errea í búningamálum er lokið og samið hefur verið við Puma um að klæða landsliðsfólk Íslands næstu árin. Því þurfa Ragnheiður Elíasdóttir, sem hefur umsjón með lagernum hjá KSÍ, og hennar fólk að rýma til fyrir nýjum vörum og sjá til þess að þær gömlu komist í góðar þarfir. Nóg er af fötum enda KSÍ með mörg landslið undir sínum hatti, en hvað verður um Errea-fötin?

„Við erum í samstarfi við UEFA og ætlum að senda þetta til Vanúatú. Þar er þó mun heitara en hjá okkur og við erum ekki að fara að senda úlpur og slíkt þangað. Það fer til Úsbekistan,“ segir Ragnheiður í Sportinu í dag, en Henry Birgir Gunnarsson heimsótti hana á lagerinn þar sem vinna var í fullum gangi.

Vanúatú er eyríki í Kyrrahafi, austur af Ástralíu, en Úsbekistan er í Mið-Asíu. Sjálfsagt eiga ekki margir íbúar þessara landa íslenskar landsliðstreyjur eða önnur föt merkt KSÍ, en nú verður breyting á. „Þau verða bara mjög hamingjusöm í fötum frá KSÍ og Errea,“ segir Ragnheiður létt, og bætir við:

„Okkur fannst sniðugt að geta endurnýtt þetta. Eitthvað af þessu er úr sér gengið, búið að margnota, en það sem er heillegt er um að gera að nýta. Þetta verður fullur 40 feta gámur.“

Ragnheiður segir að nýju vörurnar frá Puma muni brátt berast en það hafi tafist aðeins vegna kórónuveirufaraldursins. Hún segir nýjar landsliðstreyjur, bláan aðalbúning og hvítan varabúning, fara í sölu seinni hluta sumars.

Klippa: Sportið í dag - KSÍ rýmir til fyrir Puma-vörum

Sportið í dag er á dagskrá á Stöð 2 Sport alla virka daga klukkan 15.00. Upptökur af fyrri þáttum má nálgast á sjónvarpsvef Stöðvar 2. Stöð 2 Sport er hluti af Sportpakkanum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×