Fótbolti

Lewandowski jafnaði metið sitt en getur hann náð Müller?

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski fagnar marki gegn Düsseldorf í gær.
Robert Lewandowski fagnar marki gegn Düsseldorf í gær. vísir/getty

Robert Lewandowski hefur aldrei skorað fleiri mörk en á þessari leiktíð eða alls 43 mörk í öllum keppnum, eftir að hann skoraði tvö marka Bayern München í 4-0 sigri á Fortuna Düsseldorf í gær.

Bayern er efst í þýsku 1. deildinni, með tíu stiga forskot á Dortmund sem á leik til góða.

Lewandowski skoraði samtals 43 mörk leiktíðina 2016-17 og hefur nú jafnað það met þegar Bayern á enn fimm deildarleiki eftir auk þess sem liðið er komið í undanúrslit þýska bikarsins og er 3-0 yfir í einvígi sínu við Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu sem enn stendur til að klára.

Þessi 31 árs gamli leikmaður hefur skorað 29 af mörkum sínum í þýsku 1. deildinni, þar sem hann er með fimm marka forskot á Timo Werner. Lewandowski hefur mest skorað 30 mörk á einni leiktíð í deildinni og hefur nægan tíma til að gera betur. Hann varð markakóngur í fyrra með 22 mörk og leiktíðina þar áður með 29 mörk. Aðeins Gerd Müller hefur tekist að verða markakóngur þrjú ár í röð í Þýskalandi en nú blasir sá áfangi við Lewandowski.

Pólverjinn á hins vegar enn talsvert í land með að jafna met Müllers yfir flest mörk á einni leiktíð í deildinni, en Müller skoraði 40 mörk veturinn 1971-72.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×