Enski boltinn

Enska B-deildin hefst að nýju þann 20. júní

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Leeds er á toppi ensku B-deildarinnar.
Leeds er á toppi ensku B-deildarinnar. Dave Howarth/Getty Images)

Svo virðist sem stærstu deildir Evrópu séu allar við það að hefja leik að nýju. Nú hafa fregnir borist að enska B-deildin fari aftur af stað þann 20. júní næstkomandi. 

Enska úrvalsdeildin mun fara af stað 17. júní en fjórum dögum þar á undan munu bæði ítalska og spænska úrvalsdeildin hefjast að nýju. Sama dag, 13. júní, fer Pepsi Max deild karla af stað hér á landi.

Sem stendur er þýska deildin eina stóra deildin í Evrópu þar sem er spiluð knattspyrna en allir leikir þar fara fram fyrir luktum dyrum. Mun það einnig eiga sér stað í Englandi, Ítalíu og Spáni. 

Ensk yfirvöld hafa sett upp strangt regluverk varðandi íþróttaviðburði og komi eitthvað óvænt upp á næstu dögum gæti verið að úrvals- og B-deildinni verði frestað enn frekar.

Aðeins tveir Íslendingar eru í deildinni að svo stöddu en markvörðurinn Patrik Sigurður Gunnarsson er á mála hjá Brentford sem situr í 4. sæti deildarinnar. Landsliðsmaðurinn Jón Daði Böðvarsson er í Millwall sem situr í 8. sæti deildarinnar.

Níu umferðir eru eftir af deildarkeppninni en sem stendur er Leeds United á toppi deildarinnar með 71 stig. Þar á eftir kemur West Bromwich Albion með aðeins stigi minna. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×