Enski boltinn

Liverpool og Manchester United standa við bakið á réttindabaráttu svartra

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Liverpool birti þessa mynd af leikmönnum sínum í dag.
Liverpool birti þessa mynd af leikmönnum sínum í dag. Vísir/Liverpool

Ensku knattspyrnufélögin hafa bæði gefið það út að þau standi með þeim sem minna mega sín. Er þar verið að vitna í ástandið í Bandaríkjunum eftir morðið á George Floyd.

Þá hafa ofurstjörnurnar Kylian Mbappé, Paul Pogba og Marcus Rashford allir tjáð sig á samfélagsmiðlum.

Liverpool birti mynd á samfélagsmiðlum sínum í dag þar sem sjá má alla leikmenn liðsins „taka hné“ á miðjuhring Anfield, heimavallar liðsins. Colin Kaepernick, fyrrum leikstjórnandi San Francisco 49ers í NFL-deildinni gerði á sínum tíma slíkt hið sama til að vekja athygli á ofbeldi lögreglunnar í Bandaríkjunum í garð litaðs fólks. Hinn 31 árs gamli Kaepernick hefur ekki leikið í NFL-deildinni síðan árið 2016.

Þá birti Manchester United eftirfarandi skilaboð á samfélagsmiðlum sínum. Þau eru einföld en áhrifamikil. Sömu sögu má segja um myndina sem Mbappé, leikmaður Paris Saint-Germain í Frakklandi og franska landsliðsins, birti á Twitter-aðgangi sínum.

Að lokum birtu Pogba og Rashford, liðsfélagar hjá enska úrvalsdeildarfélaginu Manchester United, tilfinningaþrungin skilaboð á samfélagsmiðlum sínum.

„Ég vei tþið hafið ekki heyrt í mér í mér í nokkra daga. Hef ég verið að reyna að meðtaka það sem hefur átt sér stað. Á tíma þar sem ég hef beðið fólk um að koma saman, vinna saman og standa saman þá virðumst við vera tvístraðri en áður. Fólk er í sárum sínum og fólk þarf svör,“ segir Rashford á Twitter-síðu sinni.

„Svört líf skipta máli, svört menning skiptir máli, svört samfélög skipta máli,“ segir hann einnig.

„Síðustu daga hef ég hugsað hvernig ég eigi að tjá tilfinningar mínar með hvað gerðist í Minneapolis. Ég finn fyrir reiði, sorg, hatri og sársauka Ég finn til með George og öllu svörtu fólki sem verður fyrir barðinu á kynþáttahatri á hverjum degi. Sama hvort um er að ræða á fótboltavelli, í skóla eða vinnu, hvar sem er,“ segir Pogba til að mynda í færslu sinni.


Tengdar fréttir

Michael Jordan tjáir sig um morðið á George Floyd

Michael Jordan, einn frægasti íþróttamaður allra tíma, og eigandi Charlotte Bobcats í NBA-deildinni hefur gefið út yfirlýsingu í kjölfar mótmælanna og óeirðanna í Bandaríkjunum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×