Enski boltinn

Leikmenn Chelsea á hnén eins og leikmenn Liverpool

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Leikmenn Chelsea á æfingasvæðinu í morgun en þessi mynd er af Twitter síðu Chelsea.
Leikmenn Chelsea á æfingasvæðinu í morgun en þessi mynd er af Twitter síðu Chelsea. Mynd/Twitter

Leikmenn í ensku úrvalsdeildinni láta ekki sitt eftir liggja á þessum umrótatímum þegar samskipti lögreglunnar og svartra í Bandaríkjunum eru enn á ný í brennidepli. Réttindabarátta svartra í Bandaríkjum fær stuðning víða að úr heiminum og þar á meðal af æfingasvæðum ensku félaganna sem eru byrjuð að æfa á fullu eftir kórónuveirustopp.

Liverpool liðið vakti athygli í gær þegar þeir fóru allir niður á hnén og minntust George Floyd. Myndin af öllu liðinu sameinuðu að mótmæla meðferðinni á svona táknrænan hátt vakti mikla athygli og liðsmenn Liverpool dreifðu henni á sínum samfélagsmiðlum.

Chelsea liðið ákvað að gera það sama í dag en myndin er tekin af liðinu á æfingasvæði félagsins. Leikmenn Liverpool tóku sína mynd á Anfield.

Mikil mótmæli hafa verið í Bandaríkjum undanfarna viku eftir að blökkumaðurinn George Floyd kafnaði og dó eftir hrottalega og miskunnarlausa meðferð hjá hvítum lögreglumönnum sem höfðu handtekið hann.

Myndband af þessari „aftöku“ George Floyd var enn ein sönnun þess að mál hvítra lögreglumanna og svartra manna hafi ekki svo mikið breyst frá því að tímum Martin Luther King, Jr. og mannréttindabaráttu svartra á sjötta og sjöunda áratug 20. aldarinnar.

Cesar Azpilicueta, fyrirliði Chelsea, birti myndina af öllu Chelsea-liðinu og skrifaði líka undir hana.

„Nú er komið nóg. Við erum öll manneskjur. Sameinuð erum við sterkari. #BlackLivesMatter,“ skrifaði Cesar Azpilicueta við myndina eins og sjá má hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×