Íslenski boltinn

„Get ekki beðið eftir því að spila“

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur á æfingu með Selfossi.
Guðmundur á æfingu með Selfossi. mynd/arnar helgi magnússon

Fyrstu keppnisleikir fótboltasumarsins 2020 fara fram í kvöld þegar fyrsta umferð Mjólkurbikars karla hefst með þremur leikjum. ÍR tekur á móti KÁ, nýtt lið Smára og Njarðvík eigast við og Selfoss fær Snæfell í heimsókn.

„Maður hefur beðið spenntur lengi,“ sagði Guðmundur Tyrfingsson, hinn bráðefnilegi leikmaður Selfoss, í samtali við Vísi.

Leikið verður á grasvellinum á Selfossi sem gengur formlega undir heitinu JÁVERK-völlurinn. Að sögn Guðmundar kemur hann vel undan vetri.

„Völlurinn hefur sjaldan litið betur út og ég get ekki beðið eftir því að spila á honum,“ sagði Guðmundur.

Selfoss er eitt af sterkustu liðum 2. deildar á meðan Snæfell leikur í fjórðu og neðstu deild. Selfyssingar eru því miklu sigurstranglegri fyrir leik kvöldsins sem hefst klukkan 19:15.

„Ég á von á skemmtilegum leik. Við vanmetum ekki Snæfell þótt þeir séu í lakari deild. Þetta er bikarkeppni og þar getur allt gerst,“ sagði Guðmundur.

Guðmundur lék sína fyrstu leiki með Selfossi 2018, þá aðeins fimmtán ára.mynd/arnar helgi magnússon

Fyrsti leikur Selfoss í 2. deildinni er gegn Kára á Akranesi á Þjóðhátíðardaginn. Selfyssingar enduðu í 3. sæti 2. deildar á síðasta tímabili og stefna á að gera betur í sumar.

„Markmiðið er klárlega að fara upp og við erum enn hungraðari núna,“ sagði Guðmundur sem lék nítján af 22 deildarleikjum Selfoss í fyrra, þá aðeins sextán ára.

Guðmundur, sem hefur leikið sextán leiki fyrir yngri landslið Íslands, hefur áhuga á að spila í sterkari deild en einbeitir sér að fullu að Selfossi í sumar.

„Auðvitað hef ég metnað til að spila á hærra getustigi og betri deild. En núna hugsa ég bara um Selfoss og sé svo til hvað gerist eftir tímabilið,“ sagði Guðmundur að lokum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×