Enski boltinn

Liverpool gæti tryggt sér enska meistaratitilinn 21. júní

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Virgil van Dijk með Meistaradeildarbikarinn en hann lyftir væntanlega öðrum stórum bikar í sumar.
Virgil van Dijk með Meistaradeildarbikarinn en hann lyftir væntanlega öðrum stórum bikar í sumar. gETTY/VI Images

Nú þegar er búið að raða niður leikjunum geta menn farið að elta þær dagsetningar þar sem stuðningsmenn Liverpool geta loksins fagnað titlinum.

Liverpool gæti tryggt sér titilinn strax í fyrsta leik sem er á móti nágrönnunum í Everton og fer fram á Goodison Park 21. júní.

Ástæðan er að Manchester City verður þarna búið að leika á móti Arsenal en sá leikur fer fram 17. júní. Það er leikur sem Manchester City á inni á Liverpool.

Tapi Manchester City þeim leik getur Liverpool tryggt sér fyrsta enska meistaratitilinn í þrjátíu ár með sigri á Everton. Það væri eflaust eitthvað fyrir Liverpool stuðningsmanninn að sjá liðið sitt tryggja sér enska meistaratitilinn á Goodison Park.

Ef Liverpool liðið verður bara að treysta á sig sjálft þá er næsti leikurinn á móti Crystal Palace 24. júní eða þremur dögum síðar. Vinni Liverpool bæði Everton og Crystal Palace þá er titilinn kominn í hús sama hvernig fer hjá Manchester City.

Liverpool hefur unnið 27 af 29 deildarleikjum sínum á leiktíðinni og eina tapið kom á móti Watford skömmu fyrir að kórónuveiran stoppaði allt. Hinn leikurinn þar sem liðið missti stig var í 1-1 jafntefli á móti Manchester United í október.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×