Erlent

Mál Madelein­e Mc­Cann: Rann­saka hvort hinn grunaði tengist sam­bæri­legu manns­hvarfi

Atli Ísleifsson skrifar
Inga Gehrike (til vinstri) hvarf sporlaust úr grillveislu fjölskyldu sinnar árið 2015. Madeleine McCann er á myndinni til hægri.
Inga Gehrike (til vinstri) hvarf sporlaust úr grillveislu fjölskyldu sinnar árið 2015. Madeleine McCann er á myndinni til hægri.

Lögregla í Þýskalandi hefur tekið hvarf stúlkunnar Inga Gehrike, sem hvarf sporlaust árið 2015, þá fimm ára gömul, til rannsóknar á ný. Kannar lögregla nú hvort maður sem grunaður er um að tengjast hvarfi hinnar bresku Madeleine McCann árið 2007, kunni einnig að hafa borið ábyrgð á hvarfi Ingu litlu.

Sky News segir frá því að talið hafi verið að Inga, sem hvarf úr grillveislu fjölskyldu sinnar í Saxlandi-Anhalt, hafi týnst eftir að hafa haldið inn í skóg í leit að eldivið. Hefur hún verið kölluð „þýska Maddie“ í þýskum fjölmiðlum.

Afplánar sjö ára dóm fyrir nauðgun

Hinn grunaði, sem gengur undir nafninu Christian B. í þýskum fjölmiðlum, er 43 ára Þjóðverji og afplánar nú sjö ára fangelsisdóm í þýsku fangelsi fyrir nauðgun á eldri, bandarískri konu á Algarve í Portúgal þar sem fjölskylda Madeleine dvaldi þegar hún hvarf. Hann hafði áður hlotið dóma fyrir kynferðisbrot gegn börnum.

Maðurinn er nú orðinn miðpunktur rannsóknar bresku rannsóknarlögreglunnar Scotland Yard á hvarfi Madeleine. Þýska lögreglan, sem einnig fer með rannsókn málsins, gengur út frá því að Madeleine sé látin.

Rannsókn Sky News á síðasta ári leiddi í ljós að grunur hafi beinst að Christian B. í rannsókninni á hvarfi Ingu. Hafi lögregla gert húsleit á heimili hans um ári eftir að Inga hvarf, en sú leit hafi ekki leitt til annarra aðgerða.

Ferðaðist um í húsbíl

Christian B. er sagður hafa átt fasteign í Neuwegersleben, um 100 kílómetrum suðvestur af bænum Stendal, þaðan se Inga hvarf.

Vitað er að maðurinn ferðaðist um Portúgal í húsbíl um nokkurra ára skeið og er talinn hafa dvalið á Algarve-ströndinni í grennd við fjölskyldu Madeleine um það leyti sem hún hvarf í maí 2007. Lögregla hefur birt myndir af tveimur bílum í eigu mannsins, áðurnefndum húsbíl og bíl af gerðinni Jaguar, en hvorugur þeirra hefur varpað nokkru ljósi á hvarf Madeleine.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×