Viðskipti innlent

Kortavelta ferðaskrifstofa dróst saman í maí á meðan áfengisverslun jókst verulega

Andri Eysteinsson skrifar
Íslendingar keyptu íslenskar vörur og þjónustu í auknum mæli.
Íslendingar keyptu íslenskar vörur og þjónustu í auknum mæli. Getty/Jeffrey Greenberg

Kaup Íslendinga á innlendum vörum og þjónustu hefur aukist verulega á milli ára en kortavelta Íslendinga hér á landi var 13,6% hærri en á sama tíma árið 2019. Gögn rannsóknarseturs verslunarinnar sýna að Íslendingar ætla að ferðast innanlands í sumar en Íslendingar kaupa nú gistiþjónustu í auknum mæli.

Innlend kortavelta gististaða jókst um helming og nam tæpum 600 milljónum samanborið við tæpar 400 milljónir í maí 2019. Aukningin er mest á netinu sem bendir til þess að Íslendingar vinni nú að skipulagningu ferða. Kortavelta á netinu nam 158 milljónum í maí 2020 samanborið við 36 milljónir í fyrra.

Kortavelta ferðaskrifstofa dróst saman um 87% milli ára og nam einungis 161 milljón í ár samanborið við 1,3 milljarða í maí 2019.

Í mars og apríl hafði kortavelta dregist saman um 13% sem bitnaði á seljendum og þjónustu. Verslun í maí var aftur á móti 22% hærri en í fyrra. Kortavelta í byggingavöruverslunum nam 4,4 milljörðum í maí og segir í tilkynningu RSV að líklega hafi velta í byggingavöruverslun aldrei verið jafnhá í einum mánuði.

Áfengisverslun jókst í maí um 46% og kortavelta stórmarkaða og dagvöruverslana hækkaði um 20% í milli ára.

Fataverslun náði sér eftir samdrátt í mars og apríl og jókst velta um 19% frá maí 2019. Tollfrjáls verslun dróst saman í tölfræði RSV um 97% og var eini flokkur verslunar sem dróst saman.

Kortavelta snyrti- og heilsutengdrar þjónustu jókst um 88% milli maí-mánaða en mikil eftirspurn var eftir því að komast í klippingu til dæmis eftir að hluta samkomubanns var aflétt í byrjun maí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×