Fótbolti

Sara skoraði þegar Wolfsburg komst í bikarúrslit sjötta árið í röð

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Sara og stöllur hennar í Wolfsburg skoruðu fimm mörk gegn Armenia Bielefeld.
Sara og stöllur hennar í Wolfsburg skoruðu fimm mörk gegn Armenia Bielefeld. GETTY/KARL BRIDGEMAN

Sara Björk Gunnarsdóttir skoraði fimmta og síðasta mark Wolfsburg þegar liðið vann stórsigur á Armenia Bielefeld, 0-5, í undanúrslitum þýsku bikarkeppninnar í dag.

Í úrslitaleiknum mætir Wolfsburg annað hvort Bayer Leverkusen eða Essen. Leikur þeirra í undanúrslitum hefst klukkan 14:00. Sandra María Jessen leikur með Leverkusen.

Sara byrjaði á bekknum en kom inn á sem varamaður fyrir Ingrid Engen á 73. mínútu. Þá var staðan 0-3, Wolfsburg í vil.

Claudia Neto gerði fjórða mark Wolfsburg og annað mark sitt á 82. mínútu og einni mínútu fyrir leikslok skoraði Sara fimmta markið. Auk Söru og Neto voru Pernille Harder og Pia-Sophie Wolter á skotskónum fyrir Wolfsburg í dag.

Wolfsburg hefur orðið bikarmeistari fimm sinnum í röð og getur unnið sjötta titilinn í röð 4. júlí í Köln þar sem úrslitaleikurinn fer fram.

Sara hefur orðið bikarmeistari með Wolfsburg á öllum tímabilum sínum hjá félaginu og getur kvatt með enn einum titlinum en hún er sem kunnugt er á förum frá félaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×