Erlent

Fengu nei­kvætt svar um skot­vopnið níu dögum fyrir frétta­manna­fundinn

Atli Ísleifsson skrifar
Rannsóknarhópurinn segir Stig Engström hafa verið banamaður Olof Palme.
Rannsóknarhópurinn segir Stig Engström hafa verið banamaður Olof Palme. AP/Sænska lögreglan

Sænski rannsóknarhópurinn sem rannsakaði morðið á forsætisráðherranum Olof Palme fékk neikvæða niðurstöðu um að hægt væri að tengja ákveðið skotvopn við morðið, níu dögum fyrir fréttamannafundinn þar sem sú niðurstaða rannsóknarinnar að Stig Engström hafi verið morðingi Palme var kynnt.

Umrætt skotvopn var í eigu vinar Engström og var vopnið til rannsóknar hjá Réttartæknistofnun Svíþjóðar (NFC). Niðurstaðan var hins vegar sú að ekki hafi verið hægt að tengja vopnið við morðið - niðurstaðan 0 á skalanum -4 til +4.

Athygli vakti á fréttamannafundinum í síðustu viku að rannsóknarhópurinn kynnti ekki nein ný gögn, heldur lýsti saksóknari þess í stað atburðarás sem benti til þess að Engström, sem gengið hefur undir nafninu Skandia-maðurinn, væri morðingi forsætisráðherrans. 

Ekki yrði lengra komist í rannsókninni eftir þessi 34 ár, og hún lögð niður. Engin ákæra yrði gefin út þar sem Engstöm hafi látist árið 2000.

„Við vonuðumst til að þetta vopn myndi færa okkur nær lausn í málinu,“ segir saksóknarinn Krister Petersson við Aftonbladet.

Lögregla hafði komist að því að Engstöm hafi verið náinn vinur vopnasafnara í Täby, norður af Stokkhólmi og að sá hafi átt Smith & Wesson með „rétta hlaupvídd“ sem framleidd var árið 1954.

Skotvopnið var selt á uppboði árið 2013, eftir dauða vopnasafnarans, en lögreglu tókst síðar að hafa uppi á vopninu hjá manni sem hafði keypt það, manns í vesturhluta landsins með sérstakan áhuga á þessari gerð vopna.

Petterson segir vopnið sem um ræðir enn vera áhugavert, en því hefur nú aftur verið komið í hendur kaupandans eftir að hafa verið í fórum lögreglu í tvö og hálft ár vegna rannsóknarinnar.


Tengdar fréttir

Tilfinningaþrunginn dagur fyrir Svía

Sænskir saksóknarar telja að Stig Engström, hinn svokallaði Skandia-maður, hafi orðið Olof Palme forsætisráðherra að bana þann 28. febrúar 1986.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×