Íslenski boltinn

„Heldur þú að Óskar tæki einhvern úr Gróttu í æfingahóp sinn?“

Sindri Sverrisson skrifar
Hákon Rafn Valdimarsson þótti standa sig vel í marki Gróttu en samherjar hans heilluðu menn ekki í leiknum við Breiðablik.
Hákon Rafn Valdimarsson þótti standa sig vel í marki Gróttu en samherjar hans heilluðu menn ekki í leiknum við Breiðablik. VÍSIR/DANÍEL

Breiðablik vann afar sannfærandi 3-0 sigur á nýliðum Gróttu í 1. umferð Pepsi Max deildar karla í fótbolta. Getumunurinn á liðunum virtist mjög mikill.

„Við erum minnugir þess að báðir nýliðarnir mættu á Kópavogsvöllinn í fyrra og unnu, bæði HK og Skaginn. Þetta var því kannski smá próf fyrir þá [Blika]. En það er bara svo rosalegur getumunur þarna,“ sagði Hjörvar Hafliðason í Pepsi Max stúkunni, þegar talið barst að muninum á Breiðabliki og Gróttu. Liðin skiptust á þjálfurum í vetur þegar Óskar Hrafn Þorvaldsson tók við Breiðabliki en Ágúst Gylfason við Gróttu.

„Heldur þú að einhver leikmaður í Gróttuliðinu kæmist í 23 manna æfingahóp Breiðabliks? Fyrir utan markmanninn, hann er náttúrulega mjög efnilegur. En heldur þú að Óskar tæki einhvern úr Gróttu æfingahópinn hjá sér?“ spurði Hjörvar umsjónarmann þáttarins, Gumma Ben, sem vildi ekki ganga svo langt að svara því neitandi.

„Það er mjög erfitt fyrir mig að svara þessu en ég er sannfærður um að ef að Óskar Hrafn, sem þekkir alla leikmennina, ætti að velja 23 manna hóp úr báðum liðum þá held ég að hann tæki einhverja leikmenn úr Gróttu. Það eru líka svona karakterar sem þú hlýtur að hugsa út í,“ sagði Gummi.

Að mati Hjörvars geta Gróttumenn prísað sig sæla að hafa ekki tapað leiknum stærra:

„Það var rosalegur munur á þessum liðum. Ég hef heyrt menn bera þetta saman við það þegar lið úr neðri deild mætir efstudeildarliði í bikarnum. Eftir á var ég nokkuð sáttur við að þetta færi bara 3-0. Mér fannst stefna í að þetta yrði verra.“

Klippa: Pepsi Max stúkan - Samanburður á Breiðabliki og Gróttu

Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×