Körfubolti

Martin meiddist í leik með Alba Berlín | Vonar að meiðslin séu ekki of alvarleg

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Martin Hermannsson hefur átt frábært tímabil með Alba Berlín.
Martin Hermannsson hefur átt frábært tímabil með Alba Berlín. Aitor Arrizabalaga/Getty Images

Landsliðsmaðurnn Martin Hermannsson fór meiddur af velli eftir sex mínútna leik þegar lið hans Alba Berlín lagði Ludwigsburg með átta stiga mun, 97-89, í úrslitakeppninni í þýska körfuboltanum í gærkvöld.

Þýski körfuboltinn – líkt og þýski fótboltinn – er farinn aftur af stað og Alba Berlín er á mikilli siglingu. Martin og liðsfélagar hans stefna á þýska meistaratitilinn og eftir sigur gærkvöldsins er liðið í góðri stöðu. Leikurinn var í raun úrslitaleikur um efsta sæti B-riðils. 

Lið Martins vann alla fjóra leiki sína í riðlinum og mætir því Göttingen í 8-liða úrslitum en Göttingen endaði í fjórða sæti A-riðils.

Martin varð fyrir hnjaski í gær og fór af velli snemma leiks. Hann stefnir á að vera með í leikjunum gegn Göttingen en þeir fara fram á fimmtudg og laugardag. Liðið sem hefur betur samanlagt í þeirri viðureign fer svo í undanúrslit.

„Ég lenti beint á mjóbakinu, það er eins og ég sé með golfbolta innan í því. Mér fannst skynsamlegra að hætta en að halda áfram. Þetta ætti ekki að vera alvarlegt og ég fæ núna smá hvíld fyrir næsta leik,“ sagði Martin í viðtali við Morgunblaðið.

Áður en kórónufaraldurinn skall á og þýsku deildinni var frestað þá var lið Alba Berlín í fjórða sæti deildarinnar á meðan Göttingen var í því níunda. Martin er því nokkuð kokhraustur fyrir komandi viðureign.

„Göttingen er fínt lið og mikil orka í leikmönnunum. En ef allt er eðlilegt eigum við að fara nokkuð þægilega í gegnum þetta einvígi,“ sagði Martin að lokum í viðtalinu við Morgunblaðið.


Tengdar fréttir

Martin byrjar á tveimur sigrum eftir hléið

Martin Hermannsson og félagar í Alba Berlín hafa unnið fyrstu tvo leiki sína í nýrri útgáfu af úrslitakeppni þýsku úrvalsdeildarinnar í körfubolta sem farið var af stað með eftir að deildarkeppnin var blásin af vegna kórónuveirufaraldursins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×