Suður-Kóreustjórn varaði Norður-Kóreu í dag við frekari aðgerðum á landamærunum eftir að einræðisríkið sprengdi hús samvinnustofnunar ríkjanna í loft upp í morgun.
Húsið hefur verið mannlaust undanfarna mánuði vegna kórónuveirunnar en stofnunin var opnuð árið 2018 við hátíðlega athöfn. Á þessum tíma höfðu Kim Jong-un, leiðtogi Norður-Kóreu, og Moon Jae-in, forseti Suður-Kóreu, átt fundi um frið og kjarnorkuafvopnun Kóreuskagans. Framtíðin virtist nokkuð björt, eins og Cho Myong-gyon, sameiningarráðherra Suður-Kóreu, lýsti við athöfnina:
„Frá og með deginum í dag munu Suður- og Norður-Kórea geta rætt málefni Kóreuskaga, frið og velmegun allan sólarhringinn, alla daga ársins. Hér munum við hittast til að skiptast á hugmyndum og leysa erfið vandamál.“
Norður-Kóreumenn afar ósáttir
En svo fór að halla undan fæti. Pattstaða hefur verið í viðræðunum frá fundi Kim með Bandaríkjaforseta í fyrra og undanfarnar vikur hafa Norður-Kóreumenn gagnrýnt granna sína fyrir að skýla norðurkóreskum flóttamönnum og dreifa áróðri yfir landamærin.
„Suðurkóreskum stjórnvöldum verður refsað fyrir glæpi sína. Það er að segja að tala um að þörf sé á viðræðum á meðan þeir brýna sverðin fyrir aftan bak,“ sagði Jon Myong-il, íbúi í norðurkóresku höfuðborginni Pjongjang, við blaðamann AP.
Allt Norður-Kóreu að kenna
Auk þess að sprengja húsið hafa Norður-Kóreumenn boðað hernaðaraðgerðir nærri landamærum ríkjanna. Suður-Kóreumenn vara við öllu slíku.
„Suðurkóreska ríkisstjórnin vill koma því á framfæri að ábyrgðin á versnandi samskiptum er alfarið Norður-Kóreumanna. Við vörum við því að ef Norður-Kórea heldur áfram að spilla samskiptum ríkjanna verður því svarað af hörku,“ sagði Kim You-geun, varaforseti þjóðaröryggisráðs Suður-Kóreu, á blaðamannafundi í dag.