Enski boltinn

Chelsea staðfestir komu Werner sem kemur í júlí

Anton Ingi Leifsson skrifar
Timo Werner í leik með orkudrykkjaliðinu.
Timo Werner í leik með orkudrykkjaliðinu. vísir/getty

Chelsea staðfesti í morgun að félagið hafi keypt framherjann Timo Werner en hann kemur til félagsins frá RB Leipzig í Þýskalandi. Lengi var talið að Werner myndi ganga í raðir Liverpool en nú hefur hann samið við Lundúnarliðið.

Werner hefur farið á kostum á leiktíðinni í þýska boltanum en þessi 24 ára gamli framherji hefur skorað 26 mörk í 32 leikjum á leiktíðinni auk þess að leggja upp átta mörk. Talið er að hann kosti félagið um 50 milljónir evra.

Í frétt á heimasíðu Chelsea segir að hann muni hitta liðsfélaga sína í júlí og hann mun þar af leiðandi ekki klára Meistaradeildina með Leipzig en þýska liðið er komið í 8-liða úrslit keppninnar sem klárast með hraðmóti í ágústmánuði.

Sá þýski er ekki eini leikmaðurinn sem gengur í raðir Chelsea í sumar því Hakim Ziyech kemur einnig til þeirra bláklæddu frá Ajax. Sterkt lið sem Frank Lampard er að búa til á Brúnni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×