Íslenski boltinn

Dagný skoraði þegar Selfoss vann Blika síðast fyrir sex árum

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Dagný Brynjarsdóttir stekkur hér hæst allra í fyrstu umferðinni á móti Fylki.
Dagný Brynjarsdóttir stekkur hér hæst allra í fyrstu umferðinni á móti Fylki. Vísir/Daníel Þór

Selfoss tekur í kvöld á móti Blikum í fyrsta risaleiknum í Pepsi Max deild kvenna í fótbolta í sumar. Blikastúlkum var spáð Íslandsmeistaratitlinum í árlegri spá fyrirliða, þjálfara og forráðamanna en Selfossliðinu var aftur á móti spáð öðru sætinu.

Blikar byrjuðu mótið á 3-0 sigri á FH en Selfossliðið náði ekki að fylgja eftir sigri í Meistarakeppninni og tapaði 1-0 fyrir Fylki í Árbænum. Selfoss er því enn að bíða eftir fyrsta markinu og fyrsta stiginu í Pepsi Max deild kvenna í ár.

Breiðablik hefur haft góð tök á Selfossstelpum undanfarin sex ár eða síðan 10. júní 2014 þegar Selfoss fagnaði síðasti sigri í leik liðanna í efstu deild.

Frá þeim leik hafa liðin mæst níu sinnum í efstu deild og Breiðablik hefur unnið sjö þeirra leikja en tveir hafa endað með jafntefli. Markatalan er 16-6 Blikum í vil.

Dagný Brynjarsdóttir er nú komin aftur í Selfossliðið úr atvinnumennsku og hún var einmitt með Selfossliðinu í 3-2 sigrinum á Blikum fyrir rétt rúmum sex árum síðan.

Dagný Brynjarsdóttir skoraði þá fyrsta mark Selfossliðsins en hin mörkin skoruðu þær Erna Guðjónsdóttir og Guðmunda Brynja Óladóttir. Erna er enn með Selfossi en Guðmunda er leikmaður KR.

Báðir markaskorarar Blika í leiknum eru ekki lengur í liðinu, Aldís Kara Lúðvíksdóttir er farin aftur heim í FH og Guðrún Arnardóttir er atvinnumaður í Svíþjóð.

Leikur Selfoss og Breiðabliks hefst klukkan 19.15 í kvöld og hann verður sýndur beint á Stöð 2 Sport.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×