Erlent

Yfir­völd í Vestur-Ber­lín settu börn í fóstur til barna­níðinga

Sylvía Hall skrifar
„Tilraunavekefnið“ er sagt hafa staðið yfir í um þrjátíu ár.
„Tilraunavekefnið“ er sagt hafa staðið yfir í um þrjátíu ár. Vísir/Getty

Í um það bil þrjátíu ár voru heimilislaus börn í Vestur-Berlín sett í fóstur til barnaníðinga í tilraunaskyni. Verkefnið var hugarfóstur sálfræðiprófessorsins Helmut Kentler, sem trúði því að mennirnir gætu orðið einstaklega umhyggjusamir foreldrar.

Þetta kemur fram á þýsku fréttaveitunni DW þar sem fjallað er um rannsókn á vegum háskólans í Hildesheim. Rannsakendur á vegum skólans hafa undanfarin ár farið í gegnum gögn og tekið viðtöl sem hafa leitt í ljós að velferðarsvið Vestur-Berlínar sem og menntastofnanir studdu verkefnið.

Tvö fórnarlömb stigu fram fyrir nokkrum árum og sögðu sögu sína.

Helmut Kentler var háttsettur innan menntavísindastofnunarinnar í Vestur-Berlín og hélt sambandi við þá menn sem fengu börn í fóstur. Hann trúði því að kynferðislegt samneyti barna og fullorðinna væri skaðlaust. Kentler lést árið 2008 áttræður að aldri og hefur því aldrei verið saksóttur vegna málsins sökum fyrningar.

Rannsókn háskólans hefur jafnframt leitt í ljós að mennirnir sem tóku að sér börn fengu mánaðarlegar greiðslur frá yfirvöldum fyrir það að sinna börnunum. Er talið að á meðal fósturforeldaranna hafi verið mikilsvirtir fræðimenn í Þýskalandi en engin nöfn hafa verið nefnd í því samhengi.

Fjögur ár eru frá því að fyrsta skýrsla um þetta verkefni yfirvalda leit dagsins ljós og var hún unnin af háskólanum í Göttingen. Voru yfirvöld í Berlín sökuð um takmarkaðan áhuga á málinu og að ekki væri mikill vilji til þess að komast að sannleikanum. Þau hafa þó lýst því yfir að málið verði rannsakað og frekara ljósi varpað á það sem átti sér stað á þessu þrjátíu ára tímabili.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×