Sport

Akureyri valin fyrir alþjóðlegt íshokkímót – Barcelona mætir

Sindri Sverrisson skrifar
SA varð deildarmeistari í vetur en ekki var spiluð úrslitakeppni vegna kórónuveirufaraldursins.
SA varð deildarmeistari í vetur en ekki var spiluð úrslitakeppni vegna kórónuveirufaraldursins. mynd/íhí/Elvar Freyr Pálsson

Undankeppni Evrópubikars félagsliða í íshokkí karla mun fara fram á Akureyri og í Sofiu, höfuðborg Búlgaríu, dagana 16.-18. október.

Alþjóða íshokkísambandið tilkynnti um þetta í dag. Skautafélag Akureyrar er fulltrúi Íslands í keppninni eftir að hafa orðið deildarmeistari á síðustu leiktíð, en ekki fór fram úrslitakeppni vegna kórónuveirufaraldursins.

Evrópubikarnum hefur verið breytt lítillega vegna áhrifa kórónuveirufaraldursins, en í undankeppninni verður keppt í tveimur fjögurra liða riðlum og komast tvö efstu liðin úr hvorum riðli áfram í riðlakeppnina sem fram fer 13.-15. nóvember. Þar verður keppt í fjórum borgum og kemst eitt lið áfram úr hverjum riðli í lokakeppnina í janúar. Sigurvegari mótsins getur átt von á boði í Meistaradeild Evrópu í íshokkí.

Akureyringar munu, ef áætlanir ganga eftir, leika í riðli með íshokkíliði spænska stórveldisins Barcelona, Kaunas frá Litháen og Bat Yam frá Ísrael. Í riðlinum í Sofiu leika lið frá Serbíu, Króatíu, Tyrklandi og Búlgaríu.

SA tók einnig þátt í fyrra en tapaði þá öllum þremur leikjum sínum í undankeppninni, en leikið var í Istanbúl í Tyrklandi.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×