Fótbolti

Lewandowski sló met Aubameyang

Sindri Sverrisson skrifar
Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkum fyrir Bayern um árabil.
Robert Lewandowski hefur raðað inn mörkum fyrir Bayern um árabil. VÍSIR/GETTY

Pólski markahrókurinn Robert Lewandowski hefur átt magnað tímabil með Bayern München og nú skorað fleiri mörk en nokkur erlendur leikmaður hefur gert á einni leiktíð í þýsku 1. deildinni í fótbolta.

Lewandowski skoraði tvö mörk í 3-1 sigri á Freiburg í gær og hefur þar með skorað 33 deildarmörk á leiktíðinni. Þar með hefur hann slegið metið sem Pierre-Emerick Aubameyang setti með því að skora 31 mark tímabilið 2016-17, áður en hann fór til Arsenal.

Lewandowski á hins vegar ekki raunhæfa möguleika á að bæta markamet Gerd Müller í þýsku deildinni. Þjóðverjinn skoraði 40 mörk veturinn 1971-72 en Lewandowski á aðeins einn leik eftir til að bæta við mörkum.

Bayern hefur nú unnið 15 leiki í röð og liðið tryggði sér áttunda Þýskalandsmeistaratitilinn í röð í síðustu viku. Liðið mætir Leverkusen í úrslitaleik þýska bikarsins 4. júlí og er langt komið með að slá út Chelsea í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu eftir 3-0 sigur í fyrri leik liðanna. Til stendur að liðin mætist aftur 6. ágúst og að Meistaradeildin verði kláruð í ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×