Enski boltinn

Þrír úr Arsenal í einangrun eftir gallað próf

Sindri Sverrisson skrifar
Arsenal-menn hafa átt erfitt uppdráttar síðustu daga.
Arsenal-menn hafa átt erfitt uppdráttar síðustu daga. VÍSIR/GETTY

Það hefur allt gengið á afturfótunum hjá Arsenal eftir að keppni hófst að nýju í ensku úrvalsdeildinni í fótbolta. Þrír leikmanna liðsins gátu ekki æft í aðdraganda tapsins gegn Manchester City vegna gruns um kórónuveirusmit.

Arsenal steinlá gegn City, 3-0, síðastliðinn miðvikudag í fyrsta leik sínum eftir rúmlega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins. The Athletic hefur nú greint frá því að í reglubundinni skimun úrvalsdeildarinnar fyrir veirunni, viku fyrir leikinn, hafi einn leikmanna Arsenal greinst með jákvætt sýni. Leikmaðurinn hafi því þurft að fara í einangrun, sem og tveir liðsfélagar sem hann var í mestum samskiptum við.

Grunur lék á því að um falska niðurstöðu væri að ræða en leikmennirnir urðu samkvæmt reglum deildarinnar að vera í einangrun, jafnvel þótt að Arsenal tæki sín eigin próf sem reyndust neikvæð. Leikmennirnir þrír misstu því af þremur æfingadögum en fengu að mæta á æfingu á þriðjudag, degi fyrir leikinn við City. Samkvæmt The Athletic ferðuðust þeir allir með til Manchester og voru í leikmannahópi Arsenal.

Arsenal, sem hafði ekki tapað í átta leikjum í röð fyrir hléið og unnið þrjá síðustu leikina, hefur nú tapað tveimur fyrstu leikjum eftir hléið. Liðið tapaði 2-1 á útivelli gegn Brighton á laugardaginn og er komið niður í 10. sæti deildarinnar.

Við þetta bætist að markmaðurinn Bernd Leno meiddist í hné í leiknum við Brighton, og gæti hugsanlega verið frá keppni næsta árið, og þeir Pablo Mari og Granit Xhaka meiddust í ökkla gegn City. Arsenal mætir næst Southampton á útivelli á fimmtudaginn.


Tengdar fréttir

David Luiz allt í öllu er Arsenal tapaði fyrir City

David Luiz átti erfiðan dag er Arsenal tapaði 3-0 fyrir Manchester City í öðrum leik dagsins en dagurinn í dag markaði upphafið að 92 leikjum á næstu vikum er enska úrvalsdeildin verður kláruð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×