Íslenski boltinn

KR skoraði átta | Valur og Afturelding einnig áfram

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Ægir Jarl skoraði þrjú í kvöld.
Ægir Jarl skoraði þrjú í kvöld. Vísir/Bára

KR, Valur og Afturelding tryggðu sæti sitt í 16-liða úrslitum Mjólkurbikars karla í kvöld. KR-ingar gerðu sér lítið fyrir og skoruðu átta mörk í Egilshöllinni. Valur skoraði þrjú gegn 4. deildarliði SR og Afturelding lagði Árborg með þremur mörkum gegn engu.

KR skoraði átta | Skoraði í sínum fyrsta mótsleik

KR vann 3. deildarlið Vængja Júpíters 8-1 inn í Egilshöll. Leikurinn var þó óvænt nokkuð jafn framan af en Kristján Flóki Finnbogason kom KR yfir í upphafi leiks en Andi Andri Morina jafnaði metin tveimur mínútum síðar fyrir heimamenn. 

Stefán Árni Geirsson kom Íslandsmeisturum KR yfir áður en flautað var til hálfleiks en staðan þó aðeins 2-1 í hálfleik. Í þeim síðari blésu KR-ingar í herlúðrana eftir að Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, hefur eflaust sagt leikmönnum sínum til syndanna.

Ægir Jarl Jónasson skoraði þrjú mörk í síðari hálfleik ásamt því að Pablo Punyed, Kennie Chopart og Jóhannes Kristinn Bjarnason - í sínum fyrsta mótsleik fyrir KR - gerðu allir eitt mark. 

Leikurinn var þó ekki eingöngu gleði fyrir Vesturbæinga en Gunnar Þór Gunnarsson, miðvörður, meiddist illa á hné þegar tæpur klukkutími var liðinn og þurfti að yfirgefa völlinn. Óvíst er hvort hann leiki meira með í sumar.

Valur í basli í Laugardalnum

Valur mætti SR, venslaliði Þróttar Reykjavíkur, sem leikur í 4. deild. Björgólfur Takefusa - sem lék með KR, Fylki, Þrótti og Val á sínum tíma - var í fremstu víglínu SR og fiskaði víti um miðbik fyrri hálfleiks. 

Tók hann vítið sjálfur en Sveinn Sigurður Jóhannesson varði slaka spyrnu Björgólfs. Sigurður Egill Lárusson kom svo Val yfir þegar rúmur hálftími var liðinn. Staðan þó aðeins 1-0 í hálfleik.

Í þeim síðari skoruðu Lasse Petry og varamaðurinn Aron Bjarnason. Lokatölur 3-0 en reiknað var með töluvert stærri sigri Vals í kvöld.

Þá vann Afturelding, sem leikur í Lengjudeildinni, 3-0 sigur á Árborg sem leikur í 4. og neðstu deild.

Markarskorarar fengnir frá Fótbolti.net.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×