Íslenski boltinn

Íhuga að leita réttar síns gagnvart Regin eftir meiðsli tveggja leikmanna

Anton Ingi Leifsson skrifar
Gunnar Þór Gunnarsson mun ekki leika meiri fótbolta á þessu ári. Hann verður 35 ára á árinu og ferlinum gæti verið lokið.
Gunnar Þór Gunnarsson mun ekki leika meiri fótbolta á þessu ári. Hann verður 35 ára á árinu og ferlinum gæti verið lokið. VÍSIR/BÁRA

Knattspyrnudeild KR íhugar að leita réttar síns gagnvart fasteignafélaginu Regin eftir að annar leikmaður liðsins meiddist á gervigrasinu í Egilshöllinni fyrr í vikunni. Fréttablaðið greinir frá.

Gunnar Þór Gunnarsson, varnarmaður KR, sleit krossband í leik Vængja Júpiters og KR sem fór fram í Mjólkurbikarnum fyrr í vikunni en Gunnar er ekki eini leikmaðurinn sem hefur farið illa út úr Egilshöllinni.

Emil Ásmundsson, sem kom til KR í vetur frá Fylki, sleit einnig krossbönd inn í sömu höll og nú íhugar KR að höfða skaðabótamál á hendur fasteignafélaginu sem sér um Egilshöllina.

Klippa: Gunnar Þór ræðir meiðslin

„Við erum að skoða það hvort það sé grundvöllur fyrir bótarétti, og þá að sækja bætur í hendur Regins. Við teljum að við, og okkar leikmenn, höfum orðið fyrir fjárhagslegu tjóni vegna vanrækslu fasteignafélagsins,“ sagði Páll Kristjánsson, formaður knattspyrnudeildar KR.

„Að okkar mati hefur Reginn vanrækt þá skyldu sína að sjá til þess að viðhald sé með þeim hætti að gervigrasið í Egilshöll uppfylli þau skilyrði að völlurinn sé hættulaus leikmönnum. Af þeim sökum hafi mögulega myndast réttur til skaðabóta. Málið er í vinnslu innan okkar raða,“ bætti Páll við.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×