Björn H. Halldórsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sorpu, hefur krafið félagið um 167 milljónir króna vegna uppsagnar sinnar fyrr á árinu.
Stjórn Sorpu sagði Birni upp í febrúar síðastliðnum og hefur Björn stefnt félaginu um skaðabætur, miskabætur og vangoldin laun í tengslum við uppgjör námsleyfis.
Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag. Þar segir að í stefnunni komi fram að Björn telji uppsögnina hafa verið saknæma og ólögmæta og valdið honum fyrirsjáanlegu tjóni. Svara skaðabæturnar sem Björn fer fram á til fimm ára launa.
Í stefnunni rekur Björn að hann hafi hlotið áminningu 7. dag febrúarmánaðar og að í þeirri áminningu hafi falist að veita bæri honum „tíma og tækifæri til að bæta ráð sitt“ áður en gripið yrði til uppsagnar. Það hafi hins vegar ekki verið virt og var honum sagt upp fimm dögum síðar.
1,4 milljarða framúrkeyrsla
Í tilkynningu frá stjórn Sorpu kom fram að uppsögnin byggi á niðurstöðum skýrslu innri endurskoðunar Reykjavíkurborgar. Fékk Björn sex mánaða uppsagnarfrest og var Helgi Þór Ingason, prófessor við verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, tímabundið ráðinn framkvæmdastjóri.
Ráðist var í gerð skýrslu innri endurskoðunar eftir 1,4 milljarða krónu framúrkeyrslu við áætlaðan framkvæmdakostnað vegna byggingar gas- og jarðgerðarstöðvar í Álfsnesi og móttökustöðvar í Gufunesi.
Upplýsti ekki stjórn
Í skýrslunni var mikið gert úr hlut framkvæmdastjórans og hann meðal annars sagður hafa trassað að upplýsa stjórn Sorpu um stöðu framkvæmdanna með eðlilegum hætti.
Björn mótmælti harðlega niðurstöðum skýrslunnar, sem hann sagði „ranga, ótrausta og andstæða fyrri yfirlýsingum hans um aðferðafræði við mat framkvæmda,“ eins og Björn orðaði það í yfirlýsingu sinni á sínum tíma.