Lífið

„Kyn á ekki að skipta máli“

Sylvía Rut Sigfúsdóttir skrifar
Þorsteinn V. Einarsson, forsprakki byltingarinnar #karlmennskan, var gestur í hlaðvarpinu Kviknar.
Þorsteinn V. Einarsson, forsprakki byltingarinnar #karlmennskan, var gestur í hlaðvarpinu Kviknar. Mynd/ Hulda Tölgyes

„Þetta verkefni fjallar í raun um að hreyfa við viðteknum karlmennskuhugmyndum og reyna að varpa ljósi á alls konar birtingarmyndir karlmennskuhugmynda í lífi okkar, í samfélaginu okkar og í hegðun og viðhorfum karla og drengja,“ segir kynjafræðingurinn Þorsteinn V. Einarsson, forsprakki byltingarinnar #karlmennskan, í nýjasta þætti af hlaðvarpinu Kviknar. Þorsteinn ræddi við Andreu Eyland þáttastjórnanda um jafnrétti, naglalökkun og ýmislegt tengt föðurhlutverkinu. Þar hvetur hann foreldra til að reyna að skipta hlutverkinu eins jafnt og þeir geta á milli sín. 

„Kyn á ekki að skipta máli“ segir Þorsteinn meðal annars í þættinum. Þar segir hann að því miður snúist allt um kynið. Fyrsta spurningin sem fólk fær á meðgöngu er oftast „Veistu kynið?“ 

„Á meðan kyn skiptir svona ótrúlega miklu máli þá verðum við að tala um kyn og skoða heiminn dálítið út frá þessum kynjuðu valdatengslum sem að ég tel að séu nátengd þessu hugmyndakerfi um kvenleika og karlmennsku. Við erum ógeðslega föst þarna.“

Þorsteinn lauk meistaranámi í kynjafræði í vor og skrifaði lokaverkefnið Karlmennska, karlar og jafnrétti. Karlmennskuhugmyndir í frásögnum karla á Twitter og viðhorf karla til jafnréttis. Niðurstöður hans bentu niðurstöður til þess að frásagnir karla á Twitter gefi tilefni til að trúa að til staðar sé frjór jarðvegur fyrir jákvæða karlmennsku sem er styðjandi við jafnrétti þar sem frásagnirnar í heild samræmdust femínískum aktívisma. 

View this post on Instagram

#karlmennskan

A post shared by karlmennskan (@karlmennskan) on

Þorsteinn fékk á dögunum átta milljón króna styrk úr jafnréttissjóði til þess að sinna aktívisma á Instagram síðunni Karlmennskan ásamt því að standa fyrir stærri herferð, fræðslukvöldum um karlmennsku og hljóðvarp.

„Af hverju er ekki gert ráð fyrir að þeir elski eða séu jafn tengdir barninu og mömmurnar,“ ræddu þær Íris Tanja, Arndís og Andrea í fyrri hluta þáttarins. Að þeirra mati er orðið úrelt að sjokkerast bara ef kona ákveður að taka að sér verkefni eða vinnu sem krefst fjarveru frá heimilinu og börnunum, en þykja sjálfsagt að karlmaður geri það.

Viðtalið við Þorstein hefst á mínútu 36 í þættinum, sem hægt er að hlusta á í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Þar ræðir hann meðal annars um það af hverju hann hætti að vera karlremba. Vinkonurnar Andrea Eyland, Íris Tanja og Arnrún Lea Einarsdóttir gera svo létt grín að foreldrahlutverkinu og öllu því sem því fylgir í fyrri hluta þáttarins.

Kviknar birtist á Vísi og á öðrum efnisveitum eins og Spotify, aðra hverja viku, á miðvikudögum. Þættirnir verða alls átta talsins auk einhverra aukaþátta og hver þáttur hefur sitt þema. Eldri þætti má finna hér. 

Hlaðvarpið Kviknar fjallar um getnað, meðgöngu, fæðingu og sængurlegu. Það fjallar líka um raunina eftir að barnið er komið í heiminn. Eðvarð Egilsson sér um tónlistina í þáttunum en umsjónarkona Kviknar er Andrea Eyland.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×