„Miðað við lýsingar frá landvörðum og mönnum sem fóru yfir Sprengisand á fjórhjólum þá er enn töluverður snjór og miklar bleytur enn og töluðu þeir um allavega tíu daga. Þannig að það er nokkuð í að Sprengisandsleið opni,“ segir G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, spurður um stöðu helstu hálendisvega eftir veturinn.
„Það er verið að laga veginn inn að Nýjadal að sunnan en hann skemmdist töluvert og eru verktakar að moka í skörðin inn að Versölum.“
Í fyrrasumar opnuðust hálendisvegirnir óvenju snemma. Þannig voru þeir allir orðnir færir um þetta leyti árs, eða í byrjun júlímánaðar. Þeir virðast hins vegar ætla að opnast í seinna lagi í ár. Þó opnuðust Kjalvegur og Kaldadalsvegur fyrir miðjan júnímánuð.
G. Pétur vonast til að báðar Fjallabaksleiðir verði færar fyrir eða í kringum næstu helgi.
„Það er búið að moka frá Eldgjá og að Landmannalaugum og er eftirlitsbíll frá okkur að skoða og meta hvenær við opnum, - vonandi fyrir helgi þar á milli.
Snjóblásari er á Fjallabaki syðra í dag og vonast til að klára að moka á morgun svo það mun styttast í opnun þar - líklega um eða eftir helgi, við opnum eins fljótt og vegur og færð leyfa.“
Þá styttist í að leiðin að Lakagígum opnist.
„Í dag eru veghefill og valtari á Lakavegi og reiknum við með að klára það verk á næstu tveimur dögum og að opnað verði í kjölfarið,“ segir upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.
Hér má sjá nýjasta hálendiskort Vegagerðarinnar, frá 26. júní: