Fótbolti

Klopp segir City eða Bayern líklegust til að vinna Meistara­deildina

Anton Ingi Leifsson skrifar
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool.
Jürgen Klopp hefur náð stórkostlegum árangri sem knattspyrnustjóri Liverpool. VÍSIR/GETTY

Jurgen Klopp, stjóri Liverpool, segir að Manchester City og Bayern Munchen séu líklegust til þess að vinna Meistaradeildina í ár en ríkjandi Evrópumeistarar, Liverpool, eru úr leik.

Klopp og félagar duttu út fyrir Atletico Madrid í einu af tveimur 16-liða úrslita einvígum sem er lokið en öllu var frestað vegna kórónuveirunnar.

Það verður því útsláttarkeppni í Portúgal í ágúst og þar standa tvö lið upp úr fyrir þann þýska.

„Fyrir mér þá eru tvö lið líklegust. Það eru Bayern og City. Það yrði áhugaverður leikur. Bayern hefur spilað mjög vel eftir að Hansi Flick tók við. Það er mjög áhugavert hvað þeir hafa gert,“ sagði Klopp.

„Ég veit ekki alveg hvernig þetta raðast upp, ef þau mæta hvort öðru í undanúrslitunum eða úrslitaleiknum eða hvernig sem er, en keppnin í ágúst mun vera mjög áhugaverð.“

Klopp er spenntur fyrir úrslitakeppni en segir að varnarleikur City gætu komið þeim um koll.

„Þetta verður nýtt en þegar þú horfir á Manchester City og hópinn þeirra þá já, þeir eiga mikla möguleika, en til dæmis í leiknum á þriðjudaginn sem City vann örugglega þá hefðum við átt að skora þrjú mörk. Ekki gleyma því. Við áttum og hefðum gert það á eðlilegum degi.“

„Þeir eru með svo mikil gæði en þeir eru ekki fullkomnir. City eru það ekki, ekki heldur Bayern og ekki heldur við. En þú þarft að vera nærri því fullkominn á úrslitastundum til þess að vinna Meistaradeildina.“

„Allir þurfa heppni og ef þú ætlar að vinna Meistaradeildina þarftu að spila á þínu besta liði í úrslitaleiknum en ég held að þessi tvö lið séu líklegust. Ég mun horfa og þetta verður áhugavert en því miður erum við ekki með í ár. “




Fleiri fréttir

Sjá meira


×