Umfjöllun og viðtöl: Valur - Stjarnan 0-0 | Markalaust í endurkomu Óla Jóh á Hlíðarenda

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Ólafur Jóhannesson stýrði Stjörnunni í fyrsta sinn á sínum gamla heimavelli, Hlíðarenda, í kvöld.
Ólafur Jóhannesson stýrði Stjörnunni í fyrsta sinn á sínum gamla heimavelli, Hlíðarenda, í kvöld. vísir/bára

Valur og Stjarnan gerðu markalaust jafntefli á Origo-vellinum í 6. umferð Pepsi Max-deildar karla í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Stjörnumanna eftir sóttkví, eða í 20 daga.

Ólafur Jóhannesson sneri aftur á sinn gamla heimavöll í kvöld. Þeir Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfarar Stjörnunnar, geta nokkuð vel við stigið unað miðað við gang leiksins og hefðu líklega sætt sig við það fyrir leikinn.

Valsmenn voru hættulegri en mistókst að skora í annað sinn í þremur heimaleikjum í sumar. Valur á enn eftir að vinna leik á Hlíðarenda á þessu tímabili.

Valsmenn voru miklu sterkari í upphafi leiks og Kristinn Freyr Sigurðsson var tvisvar sinnum nálægt því að skora.

Annars var fyrri hálfleikurinn frekar tíðindalítill. Stjörnumenn voru lengi í gang og virkuðu ryðgaðir. Þeir áttu í mesta basli með að byggja upp spil og náðu engum takti í sinn leik framan af. Þeir unnu sig þó ágætlega inn í leikinn, áttu nokkrar hættulegar fyrirgjafir og Sölvi Snær Guðbjargarson átti ágæta tilraun undir lok fyrri hálfleiks.

Patrick Pedersen fékk þó besta færi fyrri hálfleikinn en hann skaut rétt framhjá á 35. mínútu eftir sendingu Birkis Más Sævarssonar.

Líkt og í fyrri hálfleik byrjaði Valur þann seinni betur og þjarmaði að Stjörnunni án þess þó að skapa sér opin færi.

Á 54. mínútu voru Stjörnumenn hársbreidd frá því að komast yfir þegar skot Hilmars Árna Halldórssonar beint úr aukaspyrnu small í slánni. Sjö mínútum síðar varði Haraldur Björnsson frábærlega skalla Pedersens af stuttu færi eftir fyrirgjöf Arons Bjarnasonar.

Eftir þetta datt leikurinn niður og ekkert markvert gerðist þar til varamaðurinn Sigurður Egill Lárusson átti skot framhjá eftir fyrirgjöf Arons á 77. mínútu. 

Skömmu síðar átti Sigurður Egill hörkuskot eftir skyndisókn sem Haraldur varði vel. Í uppbótartíma átti Lasse Petry svo fastan skalla beint á Harald. Lokatölur 0-0.

Af hverju varð jafntefli?

Stjörnumenn voru varkárir í kvöld og hefðu líklega sætt sig við eitt stig fyrir leikinn. Þeir sýndu þrautseigju og vinnusemi sem var eins gott því þeir spiluðu ekki burðugan fótbolta í kvöld. Það var þó skiljanlegt eftir þrjár vikur án leikja.

Hverjir stóðu upp úr?

Kristinn Freyr náði ekki sömu hæðum og gegn Víkingi í síðustu umferð en átti samt góðan leik. Sömu sögu er að segja af Valgeiri Lunddal Friðrikssyni, tveggja marka manninum gegn Víkingum. Sebastian Hedlund átti einnig fínan leik í miðri vörn Vals.

Brynjar Gauti Guðjónsson og Daníel Laxdal voru ólseigir í vörn Stjörnunnar og Haraldur átti flottan leik og markvarsla hans frá Pedersen bjargaði stigi fyrir gestina úr Garðabænum.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur Stjörnunnar var ekki burðugur og Hannes Þór Halldórsson átti afar náðugan dag í marki Vals. Heimamenn voru ágengari og nær því að skora en geta spilað miklu betur en þeir gerðu í kvöld.

Hvað gerist næst?

Bæði lið mæta Kópavogsliðunum í næstu umferð. Stjarnan fær HK í heimsókn á föstudaginn og á sunnudaginn mætast Valur og Breiðablik á Kópavogsvelli.

Heimir: Vantaði smá greddu undir lokin

Heimir ásamt aðstoðarmanni sínum, Srdjan Tudegdzic.vísir/sigurjón

Heimir Guðjónsson, þjálfari Vals, hefði viljað sjá sína menn seilast aðeins lengra eftir sigri á Stjörnunni í kvöld.

„Við fengum ágætis möguleika en Halli varði vel í markinu. Svo fannst mér við líka fá mjög góðar stöður á síðasta þriðjungnum sem við hefðum mátt nýta betur,“ sagði Heimir eftir leik.

„Mér fannst við eiga nokkur góð færi en við skoruðum ekki og því fengum við bara eitt stig.“

Valsmenn voru líklegri aðilinn í leiknum í kvöld en það vantaði meiri nákvæmni upp á í þeim stöðum sem þeir fengu.

„Það vantaði herslumuninn og líka smá greddu undir lokin þegar við fengum ágætis upphlaup. Við hefðum getað klárað þetta og eitt mark hefði dugað,“ sagði Heimir.

Hann játaði því að það væri áhyggjuefni að Valur væri ekki enn búinn að vinna leik á heimavelli í sumar. „Að sjálfsögðu,“ sagði Heimir og lét þar við sitja.

Ólafur Karl Finsen hefur lítið spilað með Val í upphafi tímabils og var ekki í leikmannahópi liðsins í kvöld.

„Hann er að koma til baka eftir meiðsli og það var tekin ákvörðun í gær að hafa hann utan hóps. En hann er búinn að vera duglegur að æfa og er að komast í betra og betra form,“ sagði Heimir að lokum.

Rúnar Páll: Haraldur var frábær í markinu

Rúnar Páll hrósaði vinnusemi Stjörnumanna eftir jafnteflið á Hlíðarenda.vísir/bára

Rúnar Páll Sigmundsson, annar þjálfara Stjörnunnar, var nokkuð brattur eftir markalaust jafntefli við Val á Hlíðarenda í kvöld. Þetta var fyrsti leikur Stjörnumanna í tæpar þrjár vikur.

„Mér fannst við spila ágætlega. Auðvitað var talsvert um sendingafeila og gæðunum var ábótavant. En baráttan og skipulagið var til fyrirmyndar,“ sagði Rúnar Páll eftir leik. „Þetta er mjög gott stig á erfiðum útivelli.“

En hefðu Stjörnumenn sætt sig við eitt stig fyrir leikinn í kvöld?

„Auðvitað vill maður alltaf vinna og við leggjum okkur alla fram við að reyna að fá þrjú stig. En úr því sem komið var er ég mjög sáttur við þetta stig,“ sagði Rúnar Páll.

Guðjón Pétur Lýðsson kom inn á um miðjan seinni hálfleik í sínum fyrsta leik fyrir Stjörnuna eftir komuna frá Breiðabliki.

„Hann kom mjög vel inn í þennan leik eins og allir sem spiluðu. Haraldur [Björnsson] var frábær í markinu og allt liðið okkar var mjög gott,“ sagði Rúnar Páll að endingu.

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira