Íslenski boltinn

Voru ekki í sóttkví en hafa samt ekki spilað deildarleik í tuttugu daga

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frá síðasta leik Þór/KA liðsins í Pepsi Max deildinni sem var á móti Val á Hlíðarenda fyrir tuttugu dögum síðan.
Frá síðasta leik Þór/KA liðsins í Pepsi Max deildinni sem var á móti Val á Hlíðarenda fyrir tuttugu dögum síðan. Vísir/Vilhelm

Þór/KA fær FH í heimsókn í kvöld í 6. umferð Pepsi Max deildar kvenna. Þetta verður samt bara fjórði leikur norðanliðsins í deildinni. Leikurinn fer fram á Þórsvelli á Akureyri og hefst klukkan 18.00.

Þór/KA byrjaði Pepsi Max deildina frábærlega með því að vinna tvo fyrstu leikina með markatölunni 8-1. Þriðji leikurinn fór hins vegar illa þegar liðið steinlá 6-0 á móti Íslandsmeisturum Vals á Hlíðarenda.

Þór/KA hefur ekki spilað deildarleik síðan en lék reyndar í Mjólkurbikarnum um síðustu helgi eins og öll hin liðin.

Þór/KA var samt ekki sent í sóttkví eins og lið Breiðabliks KR og Fylkis. Það hittist bara þannig á að leikir liðsins voru á móti liðunum í sóttkví.

Þetta þýðir að Þór/KA konur eru í kvöld að leika sinn fyrsta deildarleik í tuttugu daga. Þær hafa því fengið mjög langan tíma til að hugsa um það sem fór úrskeiðis á Hlíðarenda.

Þór/KA vann 1-0 sigur á Keflavík í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins á laugardaginn og hefur því unnið alla þrjá heimaleiki sumarsins.

Mótherjar kvöldsins úr FH komust líka áfram í átta liða úrslit Mjólkurbikarsins en þær eru aftur á móti ennþá stigalausar eftir fjóra leiki í Pepsi Max deildinni.

Þrír aðrir leikir fara fram í Pepsi Max deild kvenna í kvöld. ÍBV tekur á móti Breiðabliki klukkan 17.30 á Hásteinsvelli í Vestmannaeyjum og klukkan 19.15 mætast Stjarnan og KR í Garðabæ og Þróttur tekur á móti Selfossi í Laugardalnum.

KR og Breiðablik eru þar að spila sína fyrstu deildarleiki í þrjár vikur en Fylkiskonur þurfa að bíða þar til á morgun eftir sínum fyrsta deildarleik. Valur tekur þá á móti Fylki á Hlíðarenda og verður leikurinn í beinni á Stöð 2 Sport.

Bið liðanna í Pepsi Max deild kvenna eftir síðasta deildarleik:

  • 21 dagur - KR (Fór í sóttkví)
  • 21 dagur - Breiðablik (Fór í sóttkví)
  • 21 dagur - Fylkir (Fór í sóttkví)
  • 20 dagar - Þór/KA
  • 14 dagar - ÍBV
  • 13 dagar - Selfoss
  • 8 dagar - Valur
  • 8 dagar - Stjarnan
  • 8 dagar - FH
  • 8 dagar - Þróttur R.



Fleiri fréttir

Sjá meira


×