„Ég er ánægð. En samt ekki nógu ánægð þar sem við áttum að vinna þetta,” sagði Sólveig Jóhannesdóttir Larsen sem skoraði í kvöld sitt fyrsta mark í efstu deild fyrir Fylki í 1-1 jafnteflinu gegn Val í kvöld.
Það vantaði dálítið uppá í sóknarleiknum hjá Fylki. Ólíkt þjálfara sínum var Sólveig með ansi nákvæmt svar á vandamálinu.
„Mér fannst vera létt stress í okkur. Við vorum einhvern veginn að flýta okkur að gera hlutina í staðinn fyrir að sjá bara þegar þær voru opnar. Við höfðum bara átt að sjá sendingarnar á milli, þá hefði þetta bara verið einfalt.”
Málfríður Anna Eiríksdóttir kom inná hjá Val á 24. mínútu. Hún kom inná þegar Fylkir var að ná að skapa sér færi en eftir þessa skiptingu var lítið um færi hjá Fylki.
„Ég myndi ekki segja að hún ein hafi stoppað mig ég myndi segja að liðið hafi bara gert það. Þær voru þéttar og það var erfitt að fara í gegnum þessa vörn.”