Umfjöllun og viðtöl: KA - Grótta 1-0 | Dramatískur sigur í fyrsta leik Arnars

Ester Ósk Árnadóttir skrifar
FH - KA. Pepsi deild karla, sumarið 2019. Knattspyrna, fótbolti.
FH - KA. Pepsi deild karla, sumarið 2019. Knattspyrna, fótbolti. Foto: Bára Dröfn Kristinsdóttir/Bára Dröfn Kristinsdóttir

KA og Grótta mættust í dag á Greifavellinum. Liðunum hefur ekki gengið vel í deildinni. KA var fyrir leikinn í næst neðsta sæti deildarinnar með þrjú stig og Grótta sæti hærra með fjögur stig. Þetta var fyrsti leikur Arnar Grétarssonar við stjórnvölinn hjá KA en hann tók við liðinu á þriðjudaginn eftir að KA komst að samkomulagi við Óla Stefán Flóventsson um starfslok.

KA stjórnaði leiknum fyrstu 25 mínúturnar, hélt boltanum vel innan sinna raða og reyndu að skapa sér færi. Vörn Gróttu var þétt og leikplanið virtist vera að pressa ekki hátt og bíða eftir tækifærum á skyndisóknum. Á 24 mínútu leiksins átt Ásgeir skot sem fór í stöngina á marki Gróttu. Almarr fékk í kjölfarið kjörið tækifæri til að pota boltanum yfir línuna af stuttu færi en mistókst. Eftir það tók Grótta öll völd á vellinum, náðu að skapa sér góðar stöður en lítið af marktækifærum.

Seinni hálfleikur var fremur tíðinalítill. Mikill barátta inn á miðsvæðinum og lítið um opnanir. Pétur átti líklega besta færi Gróttu þegar hann fékk sendingu inn á teig frá Ástbirni. Pétur var þar einn og óvaldaður en skallaði boltann beint í hendurnar á Kristijan Jajalo. Það var ekki fyrr en á 90 mínútu að fyrsta og eina mark leiksins leit dagsins ljós en það var varamaðurinn Steinþór Freyr sem skallaði knöttinn í markið af stuttu færi eftir fyrirgjöf frá Hrannari Birni en Steinþór kom inn á völlinn á 86 mínútu. Þar við sat og KA vann sinn fyrsta leik í Pepsí Max deildinni.

Af hverju vann KA?

Þetta hefði geta fallið hvoru megin sem var. Leikurinn var kaflaskiptur, bæði lið fengu sín færi en nýttu þau illa. KA skorar dýrmæt mark í lok leiks og tekur þrjú stigin fegins hendi. Líklega hefði jafntefli verið sanngjörn úrslit en það er ekki spurt um það.

Hvað stóðu upp úr?

Vörn Gróttu var þétt í leiknum sem er virkilega jákvætt fyrir þá eftir að hafa fengið 16 mörk á sig í deildinni fyrir þennan leik. Það hefur því verið högg að fá þetta mark á sig í lokinn. Axel og Ástbjörn stóðu upp úr í liði Gróttu en Ástbjörn var virkilega öflugur út á hægri kantinum.

KA var ekki að spila frábæran bolta og nóg að gera fyrir Arnar Grétarsson sem er nýtekinn við liðinu. Rodrigo færðist ofar á völlinn í dag eftir að hafa verið að spila í miðju varnarinnar. Hann hefur verið að spila vel fyrir KA og hélt uppteknum hætti í dag.

Hvað gekk illa?

Sóknarleikur beggja liða var hugmyndarsnauður og það var lítið um opnanir. KA gekk ágætlega að spila boltanum þar til þeir komumst á síðasta þriðjunginn þá virtist botninn falla úr þessu hjá þeim og oftar en ekki töpuðu þeir boltanum.

Hvað er næst?

Það er stór verkefni framundan hjá báðum liðum. KA heimsækir FH-inga og Grótta fær Víking Reykjavík í heimsókn.

Arnar Grétarsson mættur aftur í boltann.vísir/stefán

Arnar Grétars: Þetta er bara eitt lítið skref.

„Mér fannst við koma mjög vel inn í leikinn. Við spilum fyrstu 20-25 mínúturnar mjög vel. Við réðum gangi leiksins, vorum með boltann nánast allan tímann. Við fengum mikið af góðum stöðum, krossum en svo hægt og rólega komst Grótta aðeins meira inn í leikinn. Þeir eru hættulegir í föstum leikatriðum, sköpuðu sér hættur og gerðu okkur erfitt fyrir.“

„Þetta er rosalega duglegt og vinnusamt lið þannig leikurinn jafnaðist út en heilt yfir fannst mér við vera sterkari aðilinn án þess þó að skapa okkur mikið af færum. Leikurinn hefði geta dottið hvorum meginn en ég held að það hafi ekki verið ósanngjarnt að við höfum náð að stela þessu í lokinn. Ég er ánægður með vinnusemina í liðinu því það er lykilinn að þessu að menn séu duglegir.“

„Við teljum að við séum sterkari í þessari fjögra manna vörn. Það er meira öryggi í því og ég hef yfirleitt spilað með 4 manna línu. Ég held að þetta henti okkur ágætlega en auðvitað er þetta bara þannig að það eru tveir dagar síðan ég tók við. Svo er mjög stutt á milli leikja þannig það er lítill tími á milli. Við þurfum að reyna að nýta allan þann tíma sem við getum til að drilla mannskapnum saman.“

„Það er bara mjög gaman að vera kominn aftur í Pepsí-Max deildina. Maður hefur svo gaman af fótbolta. Leiðinlegt fyrir Gróttu að fá þetta mark á sig í lokinn en þetta er frábær tilfinning. Þetta eru sætustu sigrarnir í þessum bolta og það er nú ástæðan fyrir að maður er í þessu.“

„Það er ekki spurning að KA fór í hvern einasta leik til þess að vinna, þetta er ákveðinn léttir en við erum bara rétt að byrja. Sjö leikir búnir af mótinu, það er mikið eftir og við ætlum okkar að fá miklu fleiri stig. Þannig þetta er bara eitt lítið skref. Við getum verið ánægðir núna í nokkra klukkutíma en svo þurfum við að einbeita okkur að næsta leik sem verður erfitt verkefni.“

Ágúst: Leikurinn er 90 plús

„Leikurinn er 90 plús, við vitum það og KA menn kláruðu þennan leik. Skoruð á 90 plús. Það er högg í magann fyrir okkur en eins og ég hef oft sagt áður þá töpum við sem lið og vinnum sem lið og það var þannig í dag. Við tökum eitthvað gott út úr þessu.“

„Við vorum þéttir fyrir og gáfum fá færi á okkur. Við fengum nokkur tækifæri til að skora og sama má eiginlega segja um KA mennina þeir fengu alveg ágætis færi líka. Það er ekkert sanngjarnt í fótbolta og KA tekur þessi þrjú stig með sér. Leikurinn er eins og ég sagði áðan 90 plús og hann reyndist vera það í dag, hann er ekki bara 90 mínútur.“

„Það var áhyggjuefni fyrir leikinn að vera búnir að fá á okkur 16 mörk. Héldum búrinu hreinu hérna í 90 mínútur en hann er lengur og það var munurinn á liðunum. Frekar fúlt fyrir okkur en góð frammistaða og gott vinnuframlag. Frábærir áhorfendur sem fylgdu okkur til Akureyrar og studdu okkur þannig að við tökum allt það góða út úr þessum leik fyrir leikinn á fimmtudaginn.“

Steinþór Freyr: Sá bara hnefa

„Þetta var helvíti erfitt þarna í lokinn og mjög mikilvægt að fá þessi stig. Þetta er kærkomið.“

„Ég sá boltann reyndar ekkert inni. Ég sá eiginlega bara hnefa koma í andlitið á mér þannig að ég reyndi að stýra honum. Ég heyrði liðsfélagana hoppa á mig þannig að ég bjóst við að þetta hefði orðið mark, ég fékk smá högg á hausinn. Það versta við þetta er að ég ætlaði að taka eitt fagn fyrir vinnuveitandann minn sem var búinn að lofa mér píluspjaldi ef að ég myndi skora. Kannski gefur hann mér það eftir þetta.“

„Á fyrstu tuttugu mínútunum fannst mér við eiga þennan leik og hélt að við myndum valta yfir þá miða við stöðuna. Svo einhvern veginn gefum við eftir og Grótta kemst í fínar stöður og taka yfir leikinn. Það var mikið miðjumoð og bæði lið hefðu geta stolið þessu og sem betur fer voru það við í dag. Við sýndum góðan karakter í lokinn.“

„Það er alltaf erfitt þegar maður skiptir um þjálfara og auðvitað er það aldrei þjálfaranum að kenna þannig séð. Við vitum að við eigum svo mikið inni. Það er flott að fá Arnar, ég þekki hann vel og hann kemur með fínar áherslur inn í þetta. Hann auðvitað þarf lengri tíma til að setja sinn svip á þetta en ég býst við góðum hlutum.“

Bein lýsing

Leikirnir






    Fleiri fréttir

    Sjá meira