Erlent

Blaðamaður sem afhjúpaði spillingu handtekinn

Kjartan Kjartansson skrifar
Hopewell Chino'ono ræðir við fjölmiðla árið 2018. Hann streymdi beint frá því lögreglumenn komu til að handtaka hann á samfélagsmiðlum.
Hopewell Chino'ono ræðir við fjölmiðla árið 2018. Hann streymdi beint frá því lögreglumenn komu til að handtaka hann á samfélagsmiðlum. AP/Tsvangirayi Mukwazhi

Lögregla í Simbabve handtók í dag rannsóknarblaðamann sem afhjúpaði spillingu innan heilbrigðisráðuneytisins sem tengdist búnaði vegna kórónuveirufaraldursins. Á sama tíma var leiðtogi stjórnarandstöðuflokks sem skipulagði mótmælaaðgerðir tekinn höndum.

Hopewell Chin'ono, þekktur blaðamaður í Simbabve, er sakaður um að „hvetja til þátttöku í ofbeldi á almannafæri“, að sögn talsmanns lögreglunnar. Sömu sakir eru bornar á Jacob Ngarivhume, leiðtoga lítils stjórnarandstöðuflokks. Þeir eru sagðir verða dregnir fyrir dómara fljótlega.

Mannréttindasamtök og stjórnarandstaðan saka yfirvöld um að misnota réttarkerfið til þess að ofsækja blaðamenn og aðgerðasinna. Handtökunum á tvímenningunum sé ætlað að ógna fólki. Chin'ono greindi frá svikum embættismanna í heilbrigðisráðuneytinu sem leiddu til þess að Obadiah Moyo heilbrigðisráðherra var rekinn fyrir misferli í starfi, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC.

Bandaríska sendiráðið í höfuðborginni Harare lýst áhyggjum af handtökunum. Í tísti sendiráðsins sagði að pólitískar ógnanir í garð fjölmiðla liðust ekki í lýðræðisríkjum. Hollenska sendiráðið tók í svipaðan streng og lýsti áhyggjum af stöðu tjáningarfrelsis í landinu.

Hundruð blaðamanna, lögfræðinga, lækna og hjúkrunarfræðinga hafa verið handtekin í mótmælum, verkfallsaðgerðum eða við vinnu sína undanfarna mánuði. Miklar efnahagsþrengingar dynja nú á Simbabve og í ofanálag hafa ráðamenn verið sakaðir um meiriháttar fjársvik í tengslum við innkaup á hlífðarbúnaði og lyfjum í kórónuveirufaraldrinum.

Talsmaður stjórnarflokksins ZANU-PF sakaði Chin‘ono um að reyna að koma óorði á Emmerson Mnangagwa forseta með því að bendla fjölskyldu hans við meinta spillingu sem tengdist samningum vegna búnaðar í faraldrinum í júní. Sagðist Chin‘ono þá óttast um líf sitt, að því er AP-fréttastofan greinir frá.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×