Enski boltinn

Brýna fyrir fólki að vera heima er titillinn fer á loft: „Besta sætið í húsinu er stofan“

Anton Ingi Leifsson skrifar
Hópur stuðningsmanna Liverpool safnaðist saman við Anfield og fagnaði Englandsmeistaratitlinum er ljóst var að félagið hafði tryggt sér titilinn.
Hópur stuðningsmanna Liverpool safnaðist saman við Anfield og fagnaði Englandsmeistaratitlinum er ljóst var að félagið hafði tryggt sér titilinn. VÍSIR/GETTY

Háttsett fólk innan Liverpool-borgar hefur brýnt fyrir stuðningsmönnum félagsins að halda sig heima á morgun en Liverpool lyftir þá enska meistaratitlinum í fyrsta skipti í 30 ár.

Liverpool mætir Chelsea annað kvöld en liðið tryggði sér enska meistaratitilinn fyrr í mánuðinum. Á morgun fer svo titillinn loks á loft er liðið spilar sinn síðasta heimaleik.

Engir áhorfendur mega koma á völlinn vegna kórónuveirufaraldursins og eru því margir hverjir hræddir um að margt fólk muni safnast saman fyrir utan leikvang liðsins og fagna. Það er þó stranglega bannað.

„Í þessum aðstæðum þá er besta sætið í húsinu, í stofunni hjá þér. Það er enginn ávinningur í því að safnast í kringum völlinn því við sem borg höfum við ekki efni á því að fólk safnist  saman,“ segir Natalie Perischine, aðstoðar varðstjóri hjá Merseyside lögreglunni.

„Við lifum enn á fordæmalausum tímum vegna kórónuveirufaraldursins og það síðasta sem einhver vill er að endurvakning tilfella á Merseyside þar sem hvert líf sem við missum er harmleikur.“

„Það síðasta sem við viljum á svæðinu er að við þurfum að loka borginni aftur eins og við höfum séð á öðrum svæðum,“ sagði Natalie enn fremur en í borginni Leicester hefur þurft að skella í lás í tvígang vegna kórónuveirunnar.

Matt Ashton, yfirmaður læknateymis Liverpool-borgar, tekur undir orð Natalie og segir að það sé mikilvægt að fólk haldi áfram að fara eftir öllum settum reglum. Hann segir að kórónuveiran sé enn í loftinu.

„Vonandi verður hægt að horfa frítt á verðlaunaafhendinguna í sjónvarpinu og vonandi getur borgin fagnað þessu í náinni framtíð. Þangað til þá, forðist að safnast mörg saman og njótið þess að Liverpool er enskur meistari.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×